Skip to main content

Jólin nálgast

20. desember 2016

Safnfræðsla Minjasafnsins undanfarnar vikur hefur borið þess merki að jólin eru á næsta leiti. Hingað í safnið hafa komið nokkrir hópar kátra krakka frá leikskólanum Tjarnarskógi og Fellaskóla í Fellabæ í þeim tilgangi að fá fræðslu um jólasveinana og þeirra helstu áhugamál. Í sameiningu hafa krakkarnir og safnverðir farið yfir jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum og rætt um þá hluti og athafnir sem jólasveinarnir draga nöfn sín af. Þetta eru í mörgum tilfellum hlutir og orð sem ekki eru lengur hluti af daglegu lífi barna og var tilgangur heimsóknanna að kynna hugtökin fyrir börnunum svo þau geti betur skilið nöfn jólasveinanna.

Börnin fengu til dæmis að skoða ask eins og þann sem Askasleikir reynir jafnan að stela, þvöru eins og þá sem Þvörusleikir hefur dálæti á, tólgarkerti eins og þau sem Kertasníkir elskar og margt fleira. Þá fengu þau einnig að gæða sér á laufabrauði eins og því sem Gáttarþefur fann ilminn af upp á heiðar. Flest höfðu þau einhverja reynslu af hrekkjum jólasveinanna, mörgu höfðu vaknað upp við hurðaskelli Hurðaskellis, á sumum heimilum höfðu pottar horfið og annars staðar hafði stór séð á jólahangikjötinu. Þá var það samdóma álit flestra að Skyrgámur vildi helst gamla góða skyrið en ekki skyr með piparkökubragði eins og nú má finna í hillum verslana. Það var einnig greinilegt á heimsóknunum að jólasveinavísur Jóhannesar lifa góðu lífi því flest kunnu börnin nær allar vísurnar. 

Myndin sýnir íslensku jólasveinana á leið til byggða í halarófu. Myndin er eftir Tryggva Magnússon og birtist í kvæðakverinu Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum þar sem umræddar jólasveinavísur birtust. Nánar má lesa um kverið og myndirnar hér. 

 

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...