Íslendingar í hinni kanadísku mósaíkmynd

Á sumardaginn fyrsta mun Stefán Jónasson, fræðimaður, rithöfundur og ritstjóri flytja fyrirlestur í Safnahúsinu. 

 

Fyrirlesturinn ber heitið Icelanders and the Canadian Mosaic. Hann er í boði Þjóðræknisfélaga Íslendinga hér á landi og í Vesturheimi og er haldinn í samstarfi við Minjasafnið og Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Verkefnið er hluti af The international visits program sem felst í því að félögin styrkja fræðimenn og fyrirlesara til að ferðast, annað hvort frá Íslandi eða til Íslands, til að fjalla um málefni Vestur-Íslendinga. 

Eins og yfirskrift fyrirlestursins gefur til kynna fjallar hann um það hvernig Íslendingar urðu hluti af hinu fjölbreytta kanadíska samfélaga. Árið 2017 eru 150 ár frá stofnun kanadíska sambandsríkisins, ríkis sem varð til við fullveldi gömlu bresku nýlendanna í Norður-Ameríku. Búferlaflutningar Íslendinga til Kanada hófust aðeins fimm árum síðar þegar innflytjandinn Sigtryggur Jónsson kom til borgarinnar Quebec á leið sinni til Ontario. Í innflytjendaflóðinu sem reið yfir á næstu árum gengdi hann lykilhlutverki í því að beina Íslendingum til Kanada og varð til þess að stór hluti Íslendinga settist að þar í landi, frekar en að fara til Bandaríkjanna. Þessir fyrstu íslensku innflytjendur í Vestur-Kanada festu fljótt rætur og samlöguðust samfélaginu sem fyrir var. Síðan þá hafa íslenskir innflytjendur og afkomendur þeirra haft áhrif á nær öllum sviðum kanadísks samfélags.

Stefán Jónasson er vel þekktur í kanadísku samfélagi, m.a. fyrir störf sín sem fræðimaður, ritstjóri og rithöfundur. Hann ritstýrir Lögbergi-Heimskringlu, fréttablaði Íslendinga í Vesturheimi sem hefur komið út í Winnipeg síðan 1886. 

Sem fyrr segir verður fyrirlesturinn haldinn á sumardaginn fyrsta, 20. apríl. Hann hefst kl. 16:00 og fer fram á neðstu hæð Safnahússins, fyrir framan Héraðsskjalasafnið. Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Léttar veitingar verða í boði, aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.