Skip to main content

Framkvæmdir í Kjarvalshvammi

21. september 2018

Glöggir vegfarendur um Hjaltastaðarþinghá hafa eflaust tekið eftir óvenjulegum mannaferðum í og við Kjarvalshvamm. Þar standa nú yfir endurbætur og viðhald á sumarhúsi Kjarvals.

Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að tímabært væri að ráðst í viðhald á húsinu til að tryggja áframhaldandi varðveislu þess. Undirbúningur hefur staðið yfir í rúmt ár en framkvæmdir hófust nú í september. Björn Björgvinsson, húsasmíðameistari, hefur yfirumsjón með verkinu en hann hefur víðtæka reynslu af viðhaldi gamalla húsa. Honum til fulltingis er Magnús Eiríksson húsasmíðameistari.

Verkefnið felst fyrst og fremst í því að styrkja undirstöður hússins sem voru orðnar mjög lélegar, gera við gólfbita og fótstykki og skipta um klæðningu sem er víða orðin mjög fúin. Hér er ekki um að ræða breytingar á húsinu sem slíku heldur er markmiðið með framkvæmdunum fyrst og fremst að koma í veg fyrir frekari skemmdir og tryggja varðveislu hússins um ókomna tíð svo það megi áfram standa í hvamminum sem minnisvarði um listamanninn Jóhannes Kjarval. 

Jóhannes Kjarval fæddist þann 15. október 1885 að Efri-Ey í Meðallandi en fimm ára var hann tekinn í fóstur til ættingja í Geitavík á Borgarfirði. Myndlistin átti hug hans allan og ungur hélt hann til Reykjavíkur og síðar til útlanda til að öðlast meiri þekkingu og reynslu á sviði listarinnar. Á fullorðinsárum settist hann að í Reykjavík en taugarnar sem toguðu hann austur á land voru ávallt sterkar. Sumarið 1948 lagði Kjarval, einu sinni sem oftar, leið sína austur. Ferðinni var heitið á Borgarfjörð og ætlaði hann að fá far með bát frá Selfljótsbrú að Krosshöfða. Farið brást hins vegar og bað hann því bílstjórann að keyra sig til baka í hvamm einn sunnan við Ketilsstaði, á svæði sem heitir Græfur, en þar kvaðst hann hafa séð gott "mótív". Dvölin í hvamminum hafði slík áhrif á listamanninn að hann óskaði eftir því við Björn Guttormsson, bónda á Ketilsstöðum, að fá að reisa sér þar sumarhús. Björn brást vel við bóninni og gaf listamanninum hvamminn. Húsið sem Kjarval reisti sér í hvamminum er eina húsið sem Kjarval eignaðist um ævina en hann bjó lengst af í leiguhúsnæði í Reykjavík. Sumarhús Kjarvals er nú í eigu Fljótsdalshéraðs en Minjasafn Austurlands hefur umsjón með því. 

Verkefnið er styrkt af Húsafriðunarsjóði, Uppbyggingarsjóði Austurlands, Alcoa Fjarðaáli og Landsvirkjun

 

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...