Gripur mánaðarins

Gripur mánaðarins - September

Gripur mánaðarins - September

September er genginn í garð, haustið handan við hornið og því ekki úr vegi að endurvekja grip mánaðarins eftir gott sumarfrí.

Það eru margir sem bíða í ofvæni eftir haustinu, en þá er tími uppskerunnar. Fólk flykkist út í móa til að draga björg í bú, ýmist í sveppa- eða berjamó. Þeir hörðustu sitja heilu dagana með tínur og marga dalla en aðrir láta duga að tína jafnóðum upp í sig. Lítið mál er að skjótast í næstu búð, ef manni skyldi detta í hug að hendast snöggvast í berjamó, og kaupa berjatínur fyrir alla í fjölskyldunni. Það hefur auðvitað ekki alltaf verið svo auðvelt en hlutur septembermánaðar er einmitt gott dæmi um sjálfbæra hugsun fyrri kynslóða og hvernig hlutum af heimilinu var gefið framhaldslíf. Þessi glæsilega berjatína er algjörlega heimasmíðuð úr gamalli pilsnerdós en algengt var að dósir, t.d. niðursuðudósir væru notaðar. Haldið hefur verið tinað við, sem og tindarnir sem grípa berin á lynginu. Neðst á dósinni hefur léreftspoki verið bundinn vð. Berjatínan var gefin á safnið af Sigrúnu Jónsdóttur (f.03.11.1934, d.24.08.2000), húsfreyju á Hafrafelli 1, Fellum. 

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.

Til gamans má geta að aðra heimasmíðaða berjatínu, smíðaða úr niðursuðudós, má finna á sýningunni Sjálfbær eining á Minjasafninu.

 


Gripur mánaðarins - Júní

Gripur mánaðarins - Júní

Gripur mánaðarins er að þessu sinni tengdur póstsögu landsins en það er þessi skemmtilegi póstlúður, gerður úr látúni.

Lúðurinn, sem á vantar ólina, átti Einar Ólason, landpóstur, en lúðrar af þessu tagi voru notaðir til að tilkynna komu póstsins, svo hann þyrfti ekki að koma heim á hvern einasta bæ í sveitinni. Póstferðir á Íslandi, kostaðar af opinberu fé, hófust 1782 - fyrst á Vestfjörðum. Voru þeir menn sem kölluðust landpóstar þekktir menn á sínum tíma vegna þeirra harðinda og erfiðleika sem þeir urðu við að etja á ferðum sínum, þá sérstaklega á veturna. Tæp vöð, sundvötn, jökulhlaup og veglausar heiðar - allt var þetta á leiðum póstanna. 

Einar Ólason var fæddur að Útnyrðingsstöðum á Völlum 1. nóvember 1844. Hann hóf póstferðir sínar árið 1882 frá Eskifirði til Bjarnarness eða Borga í Austur-Skaftafellssýslu. Hann sinnti póstferðum á þessari leið til ársins 1894, en lét þá af störfum vegna óskemmtilegs atviks. Það var þannig að úr pósti milli Prestbakka á Síðu og Eskifjarðar hurfu peningar. Á þessari leið voru þá póstar þeir Gísli Gíslason frá Rauðabergi og Einar Ólason. Voru þeir báðir teknir til yfirheyrslu en ekkert kom út úr þeim, en málarekstur þessi hafði það í för með sér að Einar hætti póstferðum, og tók við þeim Pétur Sigurðsson á Högnastöðum í Reyðarfirði. Peningar héldu hinsvegar áfram að hverfa og tóku böndin þá að berast að Bjarna Þórarinssyni, prófasti og póstafgreiðslumanni á Prestbakka á Síðu, og reyndist hann sannur að sök. Að máli þessu loknu var Einari aftur boðin staða sem póstur, en hann taldi sig ekki geta tekið við henni sökum vantrausts þess, er sér hefði verið sýnt. Eftir að hann hætti póstferðum fluttist hann til Borgarfjarðar eystra, fyrst í Hvannstóð en síðar að Hvoli. Þaðan fór hann að Bakkagerði í Borgarfirði og bjó þar í þurrabúð í mörg ár, allt þar til hann flutti til sonar síns, Einars, að Þingmúla í Skriðdal. 

Einar þótti harðsnúinn ferðamaður og bráðduglegur. Hann var hreinn og beinn og stórbrotinn í skapi. Þótti hann jafnvel stundum kappsamur um of í ferðum sínum. Eitt sinn í póstferð, kom Einar að Jökulsá í Lóni ófærri af krapastíflu og íshroða. Töldu allir kunnugir, að áin væri algjörlega ófær. En Einar vildi halda áfram ferð sinni og lagði þegar í ána. Óð hann krapann upp í mitti og braut með hnjám og leggjum ísinn fyrir hestunum og komst þannig yfir um ána. Var hann verulega illa leikinn eftir þetta og bar ör árum saman. 

Einar lést 1. desember 1934 að Hafranesi við Reyðarfjörð, þá níræður að aldri og var jarðsettur að Mýrum. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 

 

Heimild: Söguþættir landpóstanna, 1.-3. bindi. 

 


Gripur mánaðarins - Maí

Gripur mánaðarins - Maí

Gripur mánaðarins er þessi fallega hálsfesti. Hún má teljast nokkuð óvenjuleg að því leyti að hún er búin til úr mannshári. Í festinni er nefnilega hár systranna Sigurlaugar (1847-1936) og Guðríðar Jónsdætra frá Njarðvík. Þær voru dætur Jóns "fræðimanns" Sigurðssonar (1802-1883) fæddum á Surtsstöðum og Sigþrúðar Sigurðardóttur (1816-1887) frá Njarðvík. Guðríður og Sigurlaug voru giftar feðgum, þeim Stefáni Benediktssyni (1836-1914) og Þorvarði Stefánssyni (1859-1944) frá Borgarfirði eystra. Systurnar fluttu frá Borgarfirði með fjölskyldum sínum til Ameríku á miðjum aldri og bjuggu þar til æviloka. Guðríður lést fyrr og lét þá systir hennar, Sigurlaug, búa til festina úr hári þeirra beggja og bar hún hana þar til hún lést. Ágústa Þorvarðardóttir (líklega dóttir Guðríðar) sendi festina til Íslands að þeim látnum til Sigríðar Eyjólfsdóttur (1921-2008) prestsfrúar á Borgarfirði eystra. Ásta Steingerður Geirsdóttir, dóttir Sigríðar, gaf safninu gripinn. Til gamans má hér sjá mynd af Guðríði og Þorvarði, og hér af Sigurlaugu, Stefáni og fósturdóttur þeirra en myndirnar eru varðveittar á Ljósmyndasafni Austurlands. 

Í Evrópu hefur frá fornu fari þekkst að vinna list- og skrautmuni úr mannshári og á 19. öld varð þar til sérstök fagstétt sem notaðist við þennan efnivið til að gera myndir. Algengt var að á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu að úr mannshári væri gerðir ýmsir skartgripir, s.s. hálsfestar, eyrnalokkar, hringar, snúrur á vasaúr, nælur og fleira. Að öllum líkindum var þessi festi gerð í Ameríku, en vitað er um að umboð hafi verið á Seyðisfirði fyrir norskt fyrirtæki sem sérhæfði sig í þessari iðju. Í safnkosti Minjasafnsins er að finna þónokkra hluti gerða úr eða skreytta með mannshári, t.d. þennan hring og þessa úrfesti.

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins að þessu sinni má finna HÉR.

Ýttu HÉR til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Apríl

Gripur mánaðarins - Apríl

Það er ekki hægt að segja annað en að við séum að upplifa skrítna og óraunverulega tíma núna en öll vonumst við eftir að komast í rétta rútínu sem allra fyrst. 

Eitthvað hefur heyrst að fólk sé í þessu ástandi að hamstra hina og þess hluti og hefur þá einna helst klósettpappír verið í umræðunni sem og allskyns dósamatur. Eitt er það þó sem fólk vill alls ekki vera án ef það þarf að vera lengi innilokað og er það kaffi! Hlutur dagsins tengist því kaffidrykkju, þá einna helst kaffidrykkju áður fyrr. En kannski væri tilvalið að hefja aftur framleiðslu á þessum hlut á þessum tímum, kaffipokinn myndi endast lengur og minni áhyggjur þyrfti að hafa yfir að verða uppiskroppa með kaffi. 

 Jú, við erum einmitt að tala um kaffibæti, eða öllu heldur bauk undan "Ekta David kaffibæti" sem kom úr búi Vigfúsar Eiríkssonar og Sigríðar Jónsdóttur frá Hallfreðarstöðum í Hróarstungu. Kaffibætir þessi var framleiddur af Kaffibætisverksmiðju O. Johnson og Kaaber í Reykjavík. Aftan á bauknum stendur: "1/5 kg. Ludvig David er framúrskarandi bragðgóður og ilmsterkur kaffibætir, framleiddur úr beztu hráefnum. Ludvig David geymist bezt á svölum og ekki of þurrum stað." 

Kaffibætir var fluttur inn frá því um 1870 og þótti sjálfsagt að nota hann til að drýgja kaffið. Kaffibætir var gerður úr rótum kaffifífils eða sikoría (Cichorium intybus) sem er fjölær matjurt. Rótinni var blandað saman við malað kaffi, stundum allt að því til helminga. Kaffi án kaffibætis var gjarnan nefnt baunakaffi. Ekki líkaði öllum kaffibætirinn þó vinsæll væri fram undir miðja síðustu öld. O. Johnson & Kaaber flutti inn Ludvig David kaffibæti sem einhverra hluta vegna var ávallt kallaður Export. Kaffibætirinn var einnig nefndur rót og þannig er tilkomið að rætt var um rótsterkt kaffi. Í innflutningshöftunum í kreppunni miklu upp úr 1930 var farið að vinna Export kaffibæti hér á landi. Kaffibætirninn var í plötum og yfirleitt var notast við fjórðung úr plötu eða hálfa í hvern uppáhelling.

Nánar um grip mánaðarins á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.  


Gripur mánaðarins - Mars

Gripur mánaðarins - Mars

Ekki er hægt að segja að veðurguðirnir hafi verið okkur hér á Austurlandinu mjög hliðhollir það sem af er ári, en hver lægðin á eftir annarri hefur gengið yfir og varla hundi út sigandi á köflum.

Þá er nú fátt betra en að geta setið inni í skjóli og gripið í góða bók eða það sem mörgum þykir betra, smá handavinnu. Gripur mánaðarins að þessu sinni tengist einmitt handavinnu en það eru þessir stórglæsilegu prjónavettlingar með gatamunstri sem Málfríður Jónasdóttir prjónaði. Saga hennar er fyrir margt áhugaverð. Málfríður var fædd 27. september 1910 að Hreimsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, fyrsta barn hjónanna Guðnýjar Guðmundsdóttur frá Heiðarseli í Tungu og Jónasar Benediktssonar frá Kolsstöðum á Völlum. Þegar Málfríður var á 10. aldursári fluttist fjölskyldan að Vattarnesi við Reyðarfjörð en sama ár veiktist hún illa af heilahimnubólgu og missti bæði sjón og heyrn eftir hálf árs þjáningafull veikindi. Heyrnina fékk hún þó að einhverju leyti aftur.  Þrátt fyrir þetta lauk hún 14 ára gömul fullnaðarprófi eins og önnur börn, en foreldrar hennar aðstoðuðu hana við námið með því að lesa fyrir hana og uppfræða á alla lund. Málfríður dvaldi veturlangt í Reykjavík við nám í dönsku og blindraletri til undirbúnings frekara námi við kvennaskóla fyrir blinda í Danmörku. Styrkur hlaust til 2ja ára skólasetu ytra. Málfríður ræktaði talsvert það sem hún hafði yndi af - tónlist, ljóðlist, sögum og fræðum og eignaðist talsvert bókasafn fjölbreyttra rita á blindraletri. Ennfremur hlaut Málfríður mikla þjálfun í vefnaði ýmiskonar og voru afköst hennar og vandvirkni með ólíkindum. Hróður Málfríðar barst víða og var handavinna hennar seld og gefin vítt um land og til útlanda. Málfríður var, þótt ferill hennar gefi annað í skyn, fremur heilsuveil og lést hún aðeins þrítug að aldri, þann 20. mars 1941. 

Á Minjasafninu eru til fjöldamargir hlutir gerðir af henni, svosem sokkar, vettlingar, kjólar, vefnaðarsýnishorn og heilu rúmteppin. Ekki er annað hægt en að dást að þessu einstaka handbragði Málfríðar.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Febrúar

Gripur mánaðarins - Febrúar

Nú hefur janúarmánuður runnið sitt skeið og sólin fer ört hækkandi á lofti, öllum til ánægju. Þá er ekki úr vegi að njóta þess sem veturinn hefur upp að bjóða með því að skella sér á skíði eða jafnvel skauta. Gripur mánaðarins tengist skautaíþróttinni einmitt, en hann var notaður þegar það tíðkaðist að skauta á Lagarfljótinu. Gripurinn er svokallað skautasegl, að öllum líkindum heimasaumað, og samanstendur það úr tveimur sívölum trésköftum, 2,04 m og 2,10 m á lengd, og segli úr hvítu þéttu lérefti sem er margbundið við stangirnar. Með fylgir þverslá, 2,70 m á lengd, sívöl og mjókkar til beggja enda. Segið kemur úr búi Sveins Jónssonar (1893-1981) og Sigríðar Fanneyjar Jónsdóttur (1894-1998) á Egilsstöðum. Sveinn var góður skautamaður og notaði seglið er hann renndi sér á ís á Lagarfljótinu í góðum byr. Ásdís dóttir hans (1922-1991) mundi eftir að hafa setið á handlegg hans en með hinni hendinni hélt hann á seglinu og brunuðu þau eftir ísnum. Eitt sinn mun Sveinn hafa rennt sér upp í Hallormsstað með seglið.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.


Gripur mánaðarins - Janúar

Gripur mánaðarins - Janúar

Eftir langt og ljúft jólafrí hefst skólinn aftur. Allt gengur sinn vanagang. Gripur janúarmánaðar tengist einmitt skólagöngu en það er þessi dásamlega skólataska sem kemur frá Múla 2 í Álftafirði.

Líklegast þykir að hún sé frá árunum 1960-65. Framan á töskunni má sjá mynd af Mjallhvíti og dvergunum sjö. Í henni er eitt stórt hólf og eitt minna framan á. Taskan er svolítið farin að láta á sjá, hefur líklega þjónað vel sínum tilgangi.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi

Smelltu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.


Gripur mánaðarins - Desember

Gripur mánaðarins - Desember

Jólaljósin gleðja augað! 

Kominn er desember, sem þýðir m.a. að brátt fer daginn aftur að lengja en lengsti dagur ársins er í ár þann 22. desember.  Þá má segja að allt fari upp á við. Það er óhætt að segja að Íslendingar séu duglegir að lýsa upp þetta svartasta skammdegi, en jólaljós prýða flest öll hús á þessum tíma.  Gripur mánaðarins tengist auðvitað jólunum og hefur eflaust lýst upp heimili eiganda þess á þeim tíma. Um er að ræða fimmtán ljósa bjölluseríu sem framleidd var á Reykjalundi í kringum 1950-1965. Bjöllurnar eru í mismunandi litum og skreyttar með límmiðum. Serían kom úr búi Páls Sigfússonar (1931-2017) á Hreiðarsstöðum.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi. 

Smellið hér  til að sjá gripi fyrri mánaða. 


Gripur mánaðarins - Nóvember

Gripur mánaðarins - Nóvember

Á veturna, þegar erfitt var að fara á milli staða á hestum, var gott að geta gripið í skíðin.

Í dag eru skíðin hinsvegar nánast eingöngu notuð sem afþreying og státum við Austfirðingar t.d. af tveimur frábærum skíðasvæðum. Gripur nóvember mánaðar eru þessi tréskíði sem voru í eigu Þorsteins Sigurðssonar, læknis, sem þjónaði lengi á Fljótsdalshéraði og á Borgarfirði eystra. Hann ferðaðist oft í vitjanir á skíðum bæði innan Héraðs og eins á Borgarfjörð og þótti góður skíðamaður.   Skíðin sjálf eru rauð að neðan og þeim fylgja skíðastafir úr bambus.

 Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi. 

Smellið hér til að sjá gripi fyrri mánaða. 


Gripur mánaðarins - Október

Gripur mánaðarins - Október

Ullin hefur haldið hita á Íslendingum alveg frá því að land byggðist.  

Í dag er það talið ágætis afþreyting að prjóna en hér áður fyrr var prjónavinnan skyldustarf sem flestir á heimilinu tóku þátt í og unnið var myrkranna á milli. Ullin var unnin að vetri til en hófst ekki fyrr en eftir sláturtíð. Prjónles til heimilisnota var einkum sokkar, belgvettlingar, fingravettlingar, treflar, peysur, buxur, skór, hettur, húfur og jafnvel axlabönd. Oft voru einnig nærföt karla og sokkabönd kvenna prjónuð og jafnvel tjöld og koddaver.

Gripur októbermánaðar tengist einmitt ullarvinnslu og er þessi fallegi kembulár frá 1880 sem kemur frá Skriðu í Breiðdal. Lyppan, sem varð til þegar ullin var kembd, var geymd í kembulárum áður en hún var spunnin á snældu.  

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.