Jóladagatal Minjasafnsins - 7. desember

Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum segir í kvæðinu og er þar eflaust átt við laufabrauð sem er ómissandi á jólaborðið á mörgum heimilum. 

Í glugga dagsins á jóladagatali Minjasafnsins leynist þetta kökukefli. Keflið er komið til ára sinna en það kom úr búi hjónanna Magnúsar Þórarinssonar og Guðbjargar Sigbjörnsdóttur sem bæði voru fædd á síðari hluta 19. aldar og bjuggu á Brennistöðum í Eiðaþinghá. Eflaust hefur þetta kökukefli einhvern tíma verið notað til að fletja út örþunnar laufabrauðskökur sem glöddu heimilisfólkið fyrir jólin.

Laufabrauðið er þjóðararfur frá þeim tíma þegar mjöl var af skornum skammti og reynt var að tryggja að allir fengju a.m.k. eina köku með því að fletja þær út örþunnar. Listilegur útskurður bætti síðan fyrir hve matarlítil kakan var í raun. Þannig ber laufabrauðið bæði merki um útsjónarsemi og listfengi íslenskrar alþýðu fyrr á tímum. 

1435166

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér.