Skip to main content

Gripur mánaðarins - Apríl

Íslendingum, eins og öðrum, hefur löngum þótt kaffisopinn góður og margir telja hann algjörlega ómissandi í hversdeginum

Í dag er lítið mál að nálgast góðan kaffibolla, en það hefur kannski ekki alltaf verið jafn auðvelt, t.d. þurfti að mala hverja baun á heimilinu og til þess þurfti góða kaffikvörn. Gripur mánaðarins að þessu sinni er einmitt nokkuð stór kaffikvörn úr tré, með járnsveif, sem smíðuð var af Pétri Jökli Péturssyni (1828-1889) frá Hákonarstöðum á Jökuldal og barst til safnsins árið 1948. Kaffibaunir fylgja með í poka. Pétur Jökull var mikill og merkilegur hagleiksmaður en hann fluttist síðar til Vesturheims. 

Elsta þekkta heimild um kaffi á Íslandi er úr bréfi á milli Lárusar Gottrup lögmanns á Þingeyrum og Árna Magnússonar prófessors og handritasafnara, dagsettu 16. nóvember 1703. Vitað er að Árni stundaði tehús í Kaupmannahöfn um aldamótin 1700 og árið 1721 lét hann smíða forláta kaffikönnu úr silfri sem var tæpt kíló að þyngd. Líklega er hann fyrsti Íslendingurinn sem ánetjast te og kaffi. Um og eftir 1780 voru flestir prestar og sýslumenn á Íslandi farnir að neyta þessara heitu drykkja og margfaldaðist kaffineysla landans verulega næstu áratugina. Fyrir miðja 19. öldina var svo farið að tala um kaffikönnur, kaffikatla og kaffikvarnir sem staðalbúnað á heimilum enda heimsframleiðsla á kaffi stóraukin á þeim tíma sem og lækkandi verð á kaffibaunum. Kaffi varð á þessum tíma ekki munaðarvara, heldur líkamleg þörf!

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 

Heimildir: „Hvenær byrjuðu Íslendingar að drekka kaffi?“ af Vísindavef Háskóla Íslands. Svar frá Má Jónssyni, prófessori í sagnfræði við Háskóla Íslands, 31.5.2013.