Skip to main content

Gripir frá Fljótsdalshéraði á sýningunni Kirkjur Íslands

18. desember 2018

Sýningin Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld, straumar og stefnur var opnuð í Þjóðminjasafni Íslands á dögunum. Á sýningunni eru meðal annars fimm gripir úr kirkjum á Fljótsdalshéraði. Sýningin er sett upp í tilefni af útgáfu 31. og síðasta bindisins í ritröðinn Kirkjur Íslands. Ný og einstæð yfirsýn hefur fengist á kirkjugripi í friðuðum kirkjum landsins í tengslum við útgáfu bókaflokksins en hann er gefinn út af Þjóðminjasafninu í samstarfi við Biskupsstofu og Minjastofnun Íslands.

Á heimasíðu Þjóðminjasafnsins segir um sýninguna: "Kirkjur á Íslandi voru öldum saman ígildi listasafna samtímans. Kirkjur létu vinna fyrir sig listaverk eða keyptu þau frá erlendum framleiðendum og einnig innlendum. Verslunarsaga landsins endurspeglast í varðveittum kirkjugripum. Aldur gripanna er breytilegur og þeir endurspegla smekk og fagurfræði hvers tíma. Fjölbreytni, listrænt og menningarsögulegt mikilvægi þeirra hefur orðið ljósara eftir því sem bókum í flokknum hefur fjölgað. Mikið er um vandaða heimagerða gripi sem veita innsýn í alþýðulist fyrri tíma. Á sýningunni [...] er fjallað um fjölbreytni og stíl kirkjugripa og hvernig þeir tengjast straumum og stefnum í alþjóðlegu samhengi listasögunnar."

Sýningin var sett upp í samstarfi við menningarminjasöfn og kirkjur um allt land. Gripir úr þremur kirkjum af Fljótsdalshéraði eru til sýnis á sýningunni, þ.e. vínkanna og oblátudós úr Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu, lítill kaleikur og stóla úr Hjaltastaðakirkju í Hjaltastaðaþinghá og ferðakaleikssett úr Áskirkju í Fellum.

Sýningin er liður í veglegri dagskrá 100 ára afmælis fullveldis Íslands og Evrópska menningararfsársins 2018 í Þjóðminjasafni Íslands og mun standa fram í október 2019.

Mynd: Ferðakaleikssett úr Áskirkju.

Síðustu fréttir

Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...
Fjöldi nemenda sem fengu fræðslu frá Minjasafninu með mesta móti
30. desember 2023
Sjaldan hafa fleiri nemendur tekið þátt í safnfræðslu Minjasafns Austurlands en á árinu sem var að líða en um 800 nemendur nýttu fræðsluverkefni safnsins á árinu. Fjöldinn hefur aðeins þrisvar veri...