Skip to main content

Litið um öxl

03. janúar 2019

Nú þegar árið 2018 hefur runnið sitt skeið á enda er vel við hæfi að líta yfir farinn veg og skoða það helsta sem hefur drifið á daga innan veggja Minjasafnsins á árinu.

Árið var viðburðaríkt og annasamt en umfram allt skemmtilegt. Fyrsti viðburður á vegum Minjasafnsins á árinu var haldinn í aðdraganda öskudags en þá stóð safnið fyrir öskupokasmiðjum í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbb Austurlands. Þar gátu börn og fullorðnir fengið að kynnast listinni að sauma öskupoka. 

Á vormánuðum leit ný starfsstefna Minjasafnsins dagsins ljós en á fjögurra ára fresti setur safnið sér slíka stefnu þar sem áherslur starfseminnar næstu árin eru tíundaðar og sett fram markmið sem ætlunin er að ná á næstu fjórum árum. Í maí dróg til tíðinda í húsnæðismálum Minjasafnsins þegar Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs skrifuðu undir samning um uppbyggingu menningarhúsa í sveitarfélaginu. Í sama mánuði tók Minjasafnið þátt í ráðstefnunni Með öræfin í bakgarðinum sem Stofnun rannsóknarsetra HÍ á Austurlandi stóð fyrir. Gestum var boðið til móttöku í Minjasafninu auk þess sem safnstjóri flutti erindi á ráðstefnunni. 

Sumarsýningar Minjasafnsins voru opnaðar við hátíðlega athöfn á 17. júní. Sýningarnar voru tvær að þessu sinni annars vegar myndlistarsýningin Nr. 2 Umhverfing sem var samsýning 37 listamanna sem allir tengdust Fljótsdalshéraði og hins vegar sýningin Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi. Sú síðarnefna var hluti af stærra verkefni sem Minjasafnið tók þátt í ásamt átta öðrum mennta-, menningar- og rannsóknarstofnunum á Austurlandi í tilefni af 100 ára afmæli Fullveldis Íslands. Verkefnið náði hápunkti sínum á veglegri fullveldishátíð í Menntaskólanum á Egilsstöðum 1. desember. 

Sumaropnunartíma safnsins var breytt á árinu og var safnið nú opið alla daga frá 10:00-18:00. Safnið var vel sótt og fjölgaði gestum nokkuð frá sumrinu 2017. 

Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga var ný stjórn Minjasafnsins skipuð. Þórdís Sveinsdóttir var áfram fulltrúi Fljótsdalshrepps og Kristjana Björnsdóttir fulltrúi Borgarfjarðarhrepps. Þrír nýjir fulltrúar komi inn fyrir Fljótsdalshérað, það voru þau Ásdís Helga Bjarnadóttir, Steinar Ingi Þorsteinsson og Guðrún Ragna Einarsdóttir. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var í byrjun september. 

Síðsumars hófust endurbætur á sumarhúsi Jóhannesar Kjarvals í Kjarvalshvammi í Hjaltastaðaþinghá en Minjasafnið er umsjónaraðili hússins. Framkvæmdum verður haldið áfram á árinu 2019.

Í september fóru starfskonur Minjasafnsins í velheppnaða ráðstefnuferð til Írlands með Félagi íslenskra safna og safnmanna. Í sama mánuði tók Minjasafnið þátt í barnamenningarhátíðinni BRAS sem fram fór um allt Austurland. Boðið var upp á barnaleiðsagnir um sumarsýningar safnsins á upphafsdegi hátíðarinnar og síðar í mánuðnum var haldinn smiðjudagur í safninu undir yfirskriftinni Brasað á Minjasafninu. Minjasafnið starfsemi sína á náms- og atvinnulífssýningunni Að heiman og heim sem félagið Ungt Austurland stóð fyrir í Íþróttahúsinu á Egilsstöðum og þá var einnig opnuð ný sýningin í Safnahúsinu. Það var sýningin Kona á skjön sem fjallaði um ævi og störf rithöfundarins Guðrúnar frá Lundi. Sýningin var sett upp á vegum Bókasafnsins í samstarfi við Minja- og Héraðsskjalasafnið. 

Mikið var um að vera á Minjasafninu á aðventunni. Jólasýning Minjasafnsins að þessu sinni bar heitið Jólagluggi verslunar Pálínu Waage en þar var settur upp búðargluggi með vörum úr þessari frægu verslun. Í byrjun aðventu buðu Minjasafnið og Bókasafnið til fjölskyldusamveru í Safnahúsinu þar sem lögð var áhersla að börn og fullorðnir gætu átt skemmtilega stund saman fjarri jólastressi. Í desember stóðu söfnin í Safnahúsinu einnig fyrir bókavöku þar sem austfirskt útgáfa var í öndvegi. Síðast en ekki síst hélt Minjasafnið úti jóladagatali á heimasíðu safnsins þar sem talið var niður til jóla með því að fjalla um einn grip úr safnkosti safnsins á dag, frá 1. - 24. desember. 

Uppbygging safnfræðslu Minjasafnsins hélt áfram og var móttaka skólahópa stór hluti af starfseminni á árinu. Safnið var áfram í samstarfi við leikskólann Tjarnarskóg á Egilsstöðum en í því felst að öll börn sem verða 4 ára á skólaárinu koma í fjórar heimsóknir á safnið yfir skólaárið. Þá var leikskólinn Hádegishöfði í Fellabæ heimsóttur á þorranum og börnin þar frædd um hefðir tengdar þeim mánuði. Grunnskólarnir voru einnig duglegir að nýta sér safnið. Áfram var unnið að þróun námsefnis Minjasafnsins og var það svo gott sem tilbúið við lok ársins. 

Í innra starfi safnsins hélt endurskipulagning varðveislurýma áfram. Þá gerði styrkur frá Safnasjóði safninu kleyft að halda áfram með forvörslu á textílum úr eigu Jóhannesar Kjarval en það verkefni hafði farið af stað árið 2017. Meðfram því héldu safnverðir áfram að taka við og skrá muni, endurbæta eldri skráningar, ljósmynda þá muni sem ekki höfðu verið ljósmyndaðir og setja upplýsingar um safnkostinn inn á menningarsögulega gagnasafnið Sarp

Um leið og við óskum ykkur gleðilegs árs þökkum við fyrir heimsóknir, afhendingar, samskipti og samstarf á árinu sem er að líða. Hlökkum til þess næsta. 

 

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...