Skip to main content

Tilnefning til Íslensku safnaverðlaunanna

04. maí 2020

Samstarfsverkefnið "Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi?" er eitt fimm verkefna sem tilnefnd eru til Íslensku safnaverðlaunanna 2020. 

Verkefnið var samstarfsverkefni níu austfirskra mennta- menningar- og rannsóknarstofnanna í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018. Markmiðið var að skoða með nýstárlegum hætti hugtökin fullveldi og sjálfbærni og tengslin þar á milli. Settar voru upp fjórar sýningar á jafnmörgum söfnum á Austurlandi, þ.e Minjasafni Austurlands, Tækniminjasafninu á Seyðisfirði, Sjóminjasafninu á Eskifirði og á Skriðuklaustri í Fljótsdal þar sem aðstæður barna árin 1918 og 2018 voru bornar saman og speglaðar við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Jafnframt var opnuð heimasíða með fræðsluefni og margvíslegum fróðleik.  

Í umsögn dómnefndar segir að verkefnið sé "fordæmisgefandi um hvernig söfn af hvaða stærðargráðu sem er geta gert sig gildandi í samfélagsumræðunni og verið leiðandi í samstarfi við fleiri stofnanir. Sýningin tók á knýjandi málefnum samtímans, tengdi safnkost við samfélagið þá, nú og í náinni framtíð með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar."

Auk fyrrnefndra safna komu Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Skólaskrifstofa Austurlands, Landgræðsla ríkisins og Menntaskólinn á Egilsstöðum einnig að verkefninu en það var leitt af Austurbrú.

Metfjöldi ábendinga barst valnefndinni sem síðan tilnefndi fimm verkefni. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun afhenda Íslensku safnaverðlaunin við hátíðlega athöfn þann 18. maí næstkomandi, á alþjóðlegum degi safna, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Athöfninni verður streymt á samfélagsmiðlum í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.

Við erum stolt af þessu metnaðarfulla austfirska samstarsverkefni og þakklát fyrir tilnefninguna. Við óskum jafnframt aðstandendum hinna verkefnanna sem tilnefnd eru innilega til hamingju.

Í tilefni tilnefningarinnar verður sýningin sett upp á nýjan leik í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og opnuð 17. júní. 

 

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...