Skip to main content

Covid-BRAS

10. nóvember 2020

Hin árlega menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, BRAS, fór ekki varhluta af kórónaveirufaraldrinum sem hafði m.a umtalsverð áhrif á áætlanir Minjasafnsins í tengslum við hátíðina. 

Venju samkvæmt hugðist Minjasafn Austurlands taka virkan þátt í BRAS en segja má að hátíðin marki upphaf fræðslustarfs safnsins á hverju hausti. Ætlunin var að bjóða uppá þrjár smiðjur fyrir grunnskóla í tengslum við hátíðina, í fyrsta lagi hreyfimyndagerð þar sem nemendur áttu að vinna hreyfimyndir (stop motion) upp úr þjóðsögu að eigin vali, í öðru lagi smiðju um Valþjófsstaðahurðina þar sem nemendur áttu að vinna verk innblásið af myndmáli hurðarinnar undir handleiðslu Elínar Elísabetar Einarsdóttur teiknara og síðast en ekki síst flugdrekasmiðjur þar sem nemendur áttu jafnframt fá leiðsögn um myndlistarsýninguna Flugdrekabók.

Lengi vel var óvíst hvort af smiðjunum yrði vegna kórónaveirufaraldursins en þegar líða tók á september tók að rofa til og ákveðið var að halda smiðjurnar. Eyrún Hrefna, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar hjá safninu, heimsótti bæði Egilsstaðaskóla og Fellaskóla til að kynna Sigfús Sigfússon þjóðsagnasafnara fyrir nemendum og undirbúa hreyfimyndagerðina. Einn hópur úr Brúarásskóla náði að heimsækja safnið og búa til hreyfimynd en stuttu seinna skall þriðja bylgja faraldursins á af fullum þunga og tekið var fyrir heimsóknir nemenda á söfn og aðrar stofnanir.

En neyðin kennir naktri konu að spinna og fáar starfsstéttir hafa jafn mikla aðlögunarhæfni og kennarar. Í stað þess hætta við verkefnið brugðu þeir kennarar í Fella- og Egilsstaðaskóla sem hugðust koma með nemendur í hreyfimyndasmiðjuna, á það ráð að færa hana inn í skólann. Afrakstur vinnu nemenda úr öllum þremur skólum er nú hægt að sjá á skjá á þriðju hæð Safnahússins, fyrir framan Bókasafn Héraðsbúa. 

Hinum smiðjunum verður frestað til næsta árs og erum við nú þegar farnar að hlakka til að taka á móti nemendum. Við þökkum skólastjórendum, kennurum, starfsfólki sveitarfélagsins og Austurbrúar kærlega fyrir samstarfið við þessar óvenjulegu aðstæður.

 

Mynd: Kvikmyndagerðarfólk framtíðarinnar úr Brúarásskóla.  

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...