Ljóstýra: Draugar á Austurlandi

Margt býr í myrkrinu og þar una draugarnir sér best. Á Austurlandi hafa ýmsir draugar og afturgöngur hreiðrað um sig um dagana og sótt á íbúa fjórðungsins og jafnvel verið listafólki innblástur.

Eyjasels-Móri er einn fárra drauga sem hefur fengið ritaða ævisögu sína en það gerði Halldór Pjetursson árið 1962. Eyjasels-Móri er enda merkilegur fyrir margra hluta sakir, ekki síst vegna þess að hann er ekki afturgenginn maður heldur var hann búinn til úr efnablöndu eins og lesa má um hér.

Halldór skrifaði einnig um Bjarna-Dísu og hennar hræðilegu örlög en hún örmagnaðist á leið yfir Fjarðaheiði í hríðarveðri. Bróðir hennar, Bjarni, komst til byggða og fannst Dísa nokkrum dögum síðar. Sagan segir að þá hafi leitarmenn fundið afturgöngu Dísu en aðrir vilja meina að hún hafi verið með lífsmarki en vitstola eftir allar hrakningarnar. Kristín Steinsdóttir skrifaði einnig um Bjarna-Dísu í samnefndri sögu þar sem Dísa fær orðið og sagt er frá ævi og örlögum þessarar fátæku alþýðustúlku.

Möðrudals-Manga var afturganga Margrétar, konu Bjarna Jónssonar í Möðrudal. Þegar hún lá banaleguna lofaði Bjarni henni að giftast ekki aftur en hann sveik loforðið og tók þá Manga að ganga aftur. Eftir lát Bjarna lagðist Möðrudalur í eyði um tíma vegna reimleika. Listamaðurinn Stefán Jónsson, Stórval, var einn þeirra sem varð var við Möðrudals-Möngu og má sjá hana á einu málverka hans.

Þó erfitt geti verið að hafa hendur á draugum þá kemur fyrir að þeir náist á ljósmynd. Eitt dæmi um slíkt birtist í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi sem kom út árið 1976. Þar má sjá mynd af vofu á glugga á bænum Viðfirði sem stendur í samnefndum firði. Margvíslegar sögur hafa gengið um reimleika í firðinu allt frá því fyrr á öldum og fram á okkar daga. Þeir urðu m.a. Þórbergi Þórðarsyni innblástur að bókinni Viðfjarðarundrin.

Af nægu er að taka þegar kemur að austfirskum draugasögum. Fyrir þau sem vilja meira er vert að benda á bókina Austfirskar draugasögur sem Gunnarsstofnun gaf út árið 2006. Hún er einmitt tilvalin til lestar á Dögum myrkurs.