Skip to main content

Jólahefðir héðan og þaðan: Rússland

22. desember 2022

Næsti viðkomustaður í jólaferð okkar um heiminn er Rússland. Elena Pétursdóttir kemur frá Rússlandi en hefur búið á Seyðisfirði frá 2007 og vinnur sem bókari hjá Múlaþingi. Hún lýsir jólunum í Rússlandi á þessa leið:

„Í Rússlandi eru jólin ekki jafn stór og hátíðleg og á Íslandi en ég á mjög góðar minningar frá því um jólin þegar ég var lítil. Ég man vel eftir að hafa föndrað mikið jólaskraut allan desember. Við nýttum greinar og köngla en líka pappír, gömul dagblöð og jólakort til að búa til skraut og við vorum með jólatré sem við skreyttum. Þar er hins vegar 31. desember sem er hátíðlegastur og sá dagur sem maður hlakkar mest til. Ástæðan fyrir því er sú að eftir októberbyltinguna 1917 voru jólin bönnuð og meiri áhersla lögð á að fagna nýju ári. Eftir fall Sovétríkjanna voru jólin aftur leyfð en spenningurinn fyrir gamlársdag hefur haldið sér. Opinbert jólafrí er frá 31. desember til 10. janúar. Dagurinn fyrir gamlársdag fer í að undirbúa matinn sem er hlaðborð með alls kyns réttum. Fjölskyldan mín skálar alltaf kl. 16 vegna þess að móðurbróðir minn býr á eyjunni Sakalín sem er nálægt Japan og þar er 8 klukkustunda tímamunur. Allt kvöldið snýst um að borða og vera saman og allir eru glaðir og kátir. Ein skemmtileg hefð er að skrifa ósk fyrir nýja árið á lítinn miða, brenna hann og setja svo öskuna í kampavínið og drekka. Á miðnætti er skálað í kampavíni og sumir fara jafnvel út og safnast saman, dansa í kringum jólatré, skála og fagna. Andrúmsloftið er vinsamlegt og mikil kátína hjá fólki. Þetta er eini dagurinn sem ég upplifi heimþrá.

Í Rússlandi eru jólin haldin 7. janúar. Fyrir mér tengist sá dagur ekki endilega kirkjunni og hann er mjög lágstemmdur. Við eldum mat og erum með fjölskyldunni. Við erum með jólasvein sem heitir „afi Frost“ og er gamall góðlegur maður sem er með aðstoðarmann sem er lítil stúlka sem hjálpar honum að gefa gjafir. Allir fá gjafir hvort sem maður hefur verið þægur eða óþægur og við erum ekki með neina hræðilega fígúru eða veru sem börnin óttast.“

Hér er svo uppskrift af hunangsköku sem er vinsæl um hátíðirnar í Rússlandi:  https://momsdish.com/recipe/101/russian-honey-cake

Myndir:
Rússneski jólasveinninn: Afi Frost og aðstoðarstúlkan
Hátíðleg hunangskaka
Nýárstré

20221222 3
20221222 2
20221222 1

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...