ÞJÓÐÓLFUR.

27. ár.Reykjavík, 29. apríl 1875.16. blað.

Fell

Brjef frá Ási í Fellum dagsett 11. apríl:
Eptir að askan var nýfallin hjer, var hún á jafnsljettu þrír þumlungar á dýpt. En í Vopnafirði, út-hluta Tungu og Hlíð, yzt í Hjaltastaðaþinghá og Suðurfjörðum, er því nær sem öskulaust. Flestir úr öskusveitunum eru þegar búnir að reka af sjer geldfje í öskulausu sveitirnar, og allir hugsa til að reka lambær af sjer, þegar líður að sumarmálum. Verst er að hús fást eigi yfir fjenaðinn. Af öllu þessu leiðir til hinna mestu vandræða með bjargræði manna á næsta ári, og lítur ekki út fyrir annað en sumir bæjir leggist alveg í eyði. Fullyrða má, að engri sauðskepnu verði lífvænt á jörðu eingöngu, fyrr en fullkominn gróður er kominn. Á túnum er askan svo mikil, að enginn mannskraptur annar því að hreinsa þau til nokkurra muna, þar sem ekki næst í vatn. Sumir eru strax farnir að segja lausum jörðum og ætla að flytja búferlum í aðra fjórðunga upp á von og óvon.“

Borgarfjörður

Úr dagbók Þorvarðar Stefánssonar frá Bakka í Borgarfirði, 1875:
29. mars 1875. – Annar í Páskum. Í dag gjörðust þau tíðindi sem aldrei hafa hér umhverfis yfir Ísland komið frá því er það byggðist (svo er frá segi í bókum) og sem munu valda miklu tjóni hjá þeim sem skepnur eiga, og á þeim stöðum, þar sem þessi svokallaða aska hefur komið. Fyrst komu skrunur með miklum atgangi uppí loftinu sem menn segja að hafi verið þrumur (en snjódrífa var). Þá tók að dimma klukkan að ganga átta, með svörtum mökk, sem kom framanyfir og leiddi smámsaman úteptir sveitinni þangað til að svo var orðið dimmt að það sást ekki útí gluggann þó að væri komið fast út að glerinu. En það myrkur var víst eitthvað klukkan að ganga ellefu, eða klukkan ellefu. Með þrumusmellunum gengu eldrauðir glampar hvað eftir annað og svo líka logaði á heystráunum sem piltarnir voru að fara með sem líklega hefur verið hræfareldur. Sjálft svartamyrkrið stóð litla stund yfir, svo fór samásaman að birta upp aptur þar til klukkan tólf þá var næstum orðið albjart, en askan sem kom hjer er hjer um bil hálfur þumlungur á þykkt fyrir utan það sem er samanvið snjóinn.

Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon. Burt og meir en bæjarleið. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2001.

Hólsfjöll

Lýsing Friðriks Guðmundssonar, þá búsettur á Hólsfjöllum:
Klukkan sjö á mánudagsmorguninn voru fjármenn komnir á fætur, þeir er á beitarhús gengu. Veður var bjart og kyrrt og mikið tungsljós. Öll jörð var þakin af snjó, sem nýlega hafði fallið. Þeir, sem fyrstir komu út, gátu ekki um nein óvanaleg fyrirbrigði á lofti eða láði; en litlu seinna gat einhver um það, að allt suðurloftið væri kolsvart, og fóru þá fleiri að gefa þessu gaum, og jafnframt var það athugað, að snjórinn var að dökkna, og í staðinn fyrir að það færi að birta af degi, þá fór heldur að skyggja að. Þá gekk faðir minn út með hvítan disk og var stundarkorn úti, og þegar hann kom með diskinn aftur, þá var á honum þunnt lag af fíngerðum gler- eða málmnálum, misjafnlega löngum, sumar þumlungar og jafnvel lengri, og marglitar, og ekki grófari en fíngerðustu saumnálar. Brátt tók þó fyrir þessa úrkomu, en jafnframt hafði fallið niður smágerð aska, sem gerði snjóinn gráan að ofan. En fljótlega fór að hvessa að vestan og alt austurloftið var kolsvart langt fram á dag. Eftir fáa daga fórum við að frétta, hvað fyrir hafði komið í nágrenninu.

Friðrik Guðmundsson. Endurminningar. Reykjavík: Víkurútgáfan, 1972-1973.

Jökuldalur

Lýsing Gunnlaugs Snædal bónda á Eiríksstöðum á Jökudal:
Klukkan níu um kvöldið lagði geysimikinn mökk upp frá fjöllunum; hann var mjög svartur og svipillur, og sá hvergi glóra í gegnum hann. Norðanhvelið var heldimmt að sjá, en suðrið heiðskírt að mestu. Neðan dalinn sló að talsverðu kuli, og var það óvenjulega napurt og hráslagalegt. Um nóttina, klukkan hálf fjögur, varð fyrst vart við öskufallið. Þessi aska fjell hvergi í byggð nema á Efra-Jökuldal. Varð þá niðamyrkur, og fylgdu því ákafar þrumur og eldingar. Öskufallið hjelzt í eina klukkustund; var askan hvítgrá, mjög smágjör og svo límkennd, að hægt var að hnoða hana í hendi sjer sem leir. Öskulag það, er fjell, varð nærri tveir þumlungar á þykkt. Klukkan hálf sex rofaði nokkuð til og fór þá smátt og smátt að birta og um leið kom norðaustan kuldafjúk. Gjörði þetta snjófjúk mesta óskunda því það bleytti svo í öskulögunum, að þau síðar aldrei gat rifið til hlítar, þó hvasst yrði, því annars hefði askan fljótt sópazt burt af hálendinu. Allan þann tíma, sem hlje varð á öskufallinu, heyrðust stöðugar þrumur í útnorðri, og eldglæringar voru svo ákafar, að birtan líktist meir tunglsljósi en sólarljósi. Meðan skíma var, notuðu menn hana til þess að bjarga þeim skepnum til húsa, sem úti voru. Var það mjög örðugt, því hver skepna var blinduð af öskusalla og hundar þorðu eigi út fyrir þrumunum. Sumir smalarnir náðu eigi húsum áður en aðalöskuhríðin byrjaði. Urðu þeir að láta fyrirberast, þar sem þeir voru komnir, þangað til að hríðinni ljetti af. Klukkan átta um morguninn fór hinn sótsvarti mökkur að færast meir og meir til suðurs, og birtan fór að því skapi minnkandi. Klukkan hálf níu gekk mökkurinn fyrir sólu, og skall þá á kolsvart myrkur. Þá voru eldingar svo miklar, að nærri var albjart á milli, en annars var myrkrið svo svart, að maður sá eigi hvítt pappírsblað í hendi sinni. Dreif nú ösku niður í ákefð; var hún stórgerðari en sú sem áður fjell, og smátt og smátt urðu vikurmolarnir stærri, og síðast urðu þeir hnefastórir. Öskufallið hætti klukkan tólf og var þá öskulagið orðið sex til átta þumlungar. Svo má heita, að ekkert rofaði til fyrr en mökkurinn var alveg genginn hjá, og svo var hann þykkur, er hann leið fyrir sólu, að geislar hennar gátu hvergi stafað gegnum öskuélið. Meðan á öskufallinu stóð, fylgdi því nepjukuldi og ónáttúrulegur hráslagi. Kvað svo rammt að þessu, að menn, sem voru í allhlýjum herbergjum, naumlega gátu haldið á sjer hita. Brennisteinsfýla var mjög sterk og fannst hún lengi eptir öskufallið; undu allar skepnur henni illa, einkum hross. Hestar voru lengi stjórnlausir af fælni af öllum þrumuganginum. Síðari partinn, þriðjudag kom mikið öskurok en samt gátu menn mokað til vatns og brynnt fé. Á miðvikudaginn var enn hvassara af landi og rykið svo mikið að ekki sá milli húsa. Fimmtudagurinn var lang hvassastur og vart fært út fyrir myrkri og grjótburði. Enn var hálf dimmt í hverju húsi af rykinu og skelfing að lifa.

Jökulsárhlíð

Lýsing Guðmundar Jónssonar frá Húsey, þá búsettur í Hlíðarhúsum í Jökulsárhlíð:
Snemma um morguninn á annan páskadag var hæg norðvestangola og snjóhraglandi. Um fótaferðartíma fóru að heyrast drunur í vestri. Faðir minn fór snemma á fætur að vanda og leit til veðurs, en kom strax inn aftur og sagði, að nú væri eflaust að byrja stórkostlegt eldgos ekki mjög fjarri. En rétt í því dundi yfir svo stórkostleg þruma, að allt nötraði. Þær komu svo hver á fætur annarri með stuttu millibili. Þær virtust byrja í suðaustri en leiddi í kring fjallahringinn um Héraðið, og virtist bergmálið kastast milli hæstu tindanna út í Dyrfjöll, sem er afar hátt hamrafjall utarlega á austurfjallgarði Fljótsdalshéraðs. Þaðan kastaðist það þvert yfir Héraðið í hátt klettabelti, sem Svartfell heitir utarlega á Hlíðarfjöllum, litlu norðar en yfir bæ föður míns. Það var eins og bergmálið hækkaði við hvern hnúk, sem það fór yfir. Stórkostlegast var það þegar það barst þvert yfir Héraðið frá Dyrfjöllum til Svartfells. Svo geigvænlegt var það, að það var líkast því, að Svartfellið væri að hrynja niður og hús og land titruðu af loftþrýstingi, en venjulegur jarðskjálfti var enginn. Auðvitað var það bergmálið frá þessum tveim hamrafjöllum, sem gjörðu hljóðöldurnar svona voðalegar. Og seinna heyrði ég, að bergmálið hefði hvergi orðið eins tröllslegt eins og á milli þessara tveggja fjalla. Þessu fór hvíldarlaust fram um hádegi, en þá dró úr hávaðanum smátt og smátt.

Guðmundur Jónsson. Að vestan. Akureyri: Skjaldborg, 1983.

NORÐANFARI.

14. ár.Akureyri, 16. júní 1875.No. 37.-38.

Loðmundarfjörður

Brjef úr Loðmundarfirði dagsett 9. apríl:
Á annan í páskum, þegar vaknað var hjer klukkan sex um morgunin, sást dimmur mökkur í vestri, leiddi hann skjótt yfir svo klukkan sjö var sem hálfrökkur af öskufalli, varð þá einnig vart við eldingar og ógurlegar þrumur í lopti. Klukkan átta birti litla stund, klukkan fjórðung í níu leiddi aptur yfir öskumökkinn, og klukkan hálf níu var orðið eins dimmt og í gluggalausu húsi; stóð það niðamyrkur í þrjár klukkustundir. Þar var dimmra en nokkur svartnætti, því enginn kostur var að glöggva dyr eða stóran glugga þó maður stæði rjett fyrir innan. Þegar jeg stóð úti hjá piltunum mínum var enginn kostur við sæjum hver annan, þó við værum hver við annars hlið. Á meðan þessu helmyrkri stóð, riðu eldingar og þrumur svo þjett að eitt sinn taldi jeg fjórar á mínótu, hefi ég heyrt þrumur áður en aldrei þvílíkt undur, það var sem allt væri á reiðiskjálfi og ætlaði ofan að ríða og umrótast. Þetta var stórkostlegt og óttalegt að heyra í helmyrkvanum um hádaginn, enda mun enginn hjer eystra í öskusveitunum verða eldri en það hann muni þá stund. Klukkan hálf tólf fór aptur að birta og þrumur að strjálast, og klukkan tólf nokkurn veginn bjart og munu allir hafa orðið því fegnir. En að sjá þá yfir jörðina var allt annað en skemmtilegt. Mógrátt öskulagið lá jafnt yfir allt, eins efstu fjallatinda sem láglendi því blíða logn var á meðan á þessu stóð. Jeg mældi strax öskulagið á sljettu og var það þriggja þumlunga þykkt.

NORÐANFARI.

14. ár.Akureyri, 13. maí 1875.No. 25.-26.

Seyðisfjörður

Brjef frá Seyðisfirði, dagsett 29. apríl:
Hjer hafa nú dunið þau heimsins undur yfir Austurland, að slíkt man enginn nú lifandi manna. Hjer á Seyðisfirði og víðar, mun því annar í páskum lengi í minnum hafður. Dagurinn byrjaði nú raunar samt eins og hver annar dagur, sem Guð gefur yfir, þó var lítið eitt skuggsýnna fyrst, en klukkan níu dimmdi skyndilega og varð svo myrkt, að enginn nótt getur orðið svo svört, því þótt menn stæðu í bæjardyrunum var ómögulegt að vita, hvort það var úti eða inni, nema með áþreifingu. Þrumur gengu óteljandi með eldingum, líkt eins og gjörvallur heimur með brestum og braki ætlaði til grunna að ganga. Sumt af kvennþjóðinni hugði líka heimsendirinn kominn og lagðist upp í rúma, sjálfsagt með fyrirbænum. Stafalogn var úti, þegar þetta gjörðist. Öskufallið varð hjer um einn og einn þriðji þumlungur áður hún seig. Sumsstaðar hjer hefur nú rifið dálítið, einkum norðanvert við fjörðinn. Menn eru nú í óða önn að verka tún sín, og væri óskandi að eigi fyki á þau aptur. Menn hyggja að lítið verði hjer um heyskap í sumar, nema ef tún kynnu að verða notandi. Sumir segja að fjenaður sje orðinn skinnlaus í munninum, hvað sem satt er í því.

ÍSLENDINGUR.

No 13-14.12. júní1. ár 1875.

Suðurfirðir

Brjef úr Suður-Múlasýslu:
„Á annan í Páskum var veður hjer mjög kyrrt; netaský dreifuðst um loftið, og naut lítt sólarbirtu nje varma, en annars var frostlaust veður og mjög stillt. Um hádegisbil var jeg staddur úti, og varð jeg þá þess rjett aðeins var, að öskufall var. Svo sýndist sem smáskúrir væru í fjallahlíðunum, og fannirnar urðu grámóleitar á lit, en áður voru þær að líta sem hreinn mjallasnjór; en fjarri fór því samt, að jeg gæti rennt grun í það, hver ósköp gengju á hjer í næstu sveit, sem kalla má um Fljótsdalshjerað. Breiðdalur er sagður að miklu leyti frír við ósköp þessi; Berufjarðarströnd og Álptafjörður alveg sandlaus; en samt komumst vjer hjer ekki hjá illum afleiðingum af sandfokinu, hjer er allt orðið fullt af fje og hrossum úr hinum sveitunum; svo að í högum vorum er hvívetna orðið of sett á landið, og horfir til vandræða, ef ekki greiðist úr fyrir hjeraðsmönnum.“

NORÐANFARI.

14. ár.Akureyri, 19. maí 1875.No. 27.-28.

Skriðdalur

Lýsing Sr. Sigurðar Gunnarssonar á Hallormsstað:
Á annan í páskum heyrðust mjög snemma um morguninn drunur miklar og umbrot í vestri, og leiddi dunreiðarnar norðaustur til ytri Hjeraðsfjalla og svo inn suðurfjöllin, því vindur hefur verið á vestan eða sunnan við vestur, þar sem eldgosið var og borið hljóðið. Lopt var þykkt og kolsvart til norðurs og norðausturs. Jeg var staddur að Þingmúla í Skriðdal þegar þetta var, og var þar logn. Um dagmálabil fór að rigna ofan úr loptinu hvítgráum vikri stórgerðum. Kornið á digurð við grjón en mikið lengri. Sortinn ytra færðist inn eptir, og var alla tíð að dimma, og vikurregnið jókst. Rúmri stundu fyrir hádegi varð að kveikja ljós í húsum, þá sá ég eigi lengur á bók. Þegar leið að hádegi var orðið svo dimmt úti sem í gluggalausu húsi. Þetta niðamyrkur hið svartasta hjelst í rúma stund. Alls voru það um fjórar stundir sem ljós varð að hafa. Loptið var hlaðið rafurmagni, svo að logaði á turntoppunum og stafabroddum, sem upp var snúið, stundum og á höndum manna er menn réttu upp. Dunreiðarnar, sem fylgdu með reglulegu bili eldingunum, voru nokkuð ólíkar þrumuöskri – því hjer var loptið hlaðið ösku og mótspyrnan meiri en í auðu lopti. Var sem hvellur tæki við af hvelli yfir þveran himin. Askan lá logndauð þrjá daga. Jörð var hjer öll auð í byggðum á undan öskufallinu. Engin skepna mátti úr húsum koma, fjeð varð sem hamstola úti, rann og hljóp eitthvað út í bláinn.