Skip to main content

Fyrri sýningar

Þorláksmessukvöld

Jólasýning safnsins árið 2023 var sýningin Þorláksmessukvöld. Sýningin var sett upp í Krubbunni, sýningarsými í aðalsýningarsal safnsins, en þar gátu gestir skyggnst inn í stofu á íslensku heimili á sjöunda áratungnum þar sem jólaundirbúningurinn er í hámarki. Þegar við lítum inn er húsbóndinn nýstiginn upp úr stólnum sínum, þar sem hann hafði setið og hlutað á jólakveðjurnar sem óma úr útvarpinu, og er farinn út að reita rjúpurnar. Húsmóðirin er í óðaönn að strauja jóladúkana, ryksugan er til þjónustu reiðubúin á gólfinu og við stofuborðið er verið að pakka inn síðustu jólagjöfunum. Jafnframt hefur einhvern verið að skreyta jólatréð og pússa spariskóna. 

Jóladagatöl

Jóladagatöl eru orðin ómissandi þáttur aðventunnar hjá mörgum. Úrvalið eykst með hverju ári og í gluggum margra þeirra leynast ekki bara myndir heldur einnig súkkulaði eða aðrir glaðningar. Á jóla-örsýnignunni Jóladagatöl voru dregin fram þau jóladagatöl sem varðveitt eru á safninu. Dagatöl eru jafn ólík og þau eru mörg en eiga það sameiginlegt að hafa glatt eigendur sína á meðan beðið var eftir jólum, sum hver ár eftir ár. 

Skóladagar

Haustið 2023 var sýningin Skóladagar sett upp í sýningarskápnum á efstu hæð Safnahússins. Þar voru til sýnis margvíslegir gripir úr safnkosti safnsins sem tengdust á einhvern hátt skólastarfi. Þar mátti meðal annars sjá gamlar skólabækur, skólaspjöld, skriffæri, húsgögn og skólatösku svo eitthvað sé nefnt. Reikna má með að margir eldri gestir hafi kannast við einhverja gripi frá sinni eigin skólagöngu á meðan líklegra er að núverandi grunnskólanemar hafi rekið upp stór augun enda mikið vatn runnið til sjávar í skólastarfi síðan þessir gripir voru notaðir. 

Ferðalög fyrr á tímum

Sumarsýning Minjasafnsins 2023 bar yfirskriftina Ferðalög fyrr á tímum og var sett upp í Krubbunni, sýningarrými í sýningarsal Minjasafnsins.

Á sýningunni var að finna framsetningu muna sem skapa sviðsmynd tjaldferðalags í íslenskri náttúru fyrr á tímum. Í dag þykja okkur ferðalög sjálfsagður hluti af nútímalífstíl en það er í raun er ekki langt síðan að þau voru aðallega iðkuð í þeim tilangi að komast á milli staða af praktískum ástæðum. Lítill frítími og lélagar samgöngur höfðu þar megin áhrif. Þó eru til einstaka heimildir um bæði Íslendinga og útlendinga sem nutu þess að ferðast um íslenska náttúru hvort sem það voru lengri eða styttri ferðir í nærumhverfi og voru dæmi um slíkar heimildir dregin fram á sýningunni. 

Sýningin var styrkt af menningarsjóði Múlaþings og ljósmyndir á veggspjöldum voru fengnar að láni hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga.

 

Spengja, stoppa, staga, stykkja

Sýningin Spengja, stoppa, staga, stykkja var sett upp í tilefni af alþjóðlega safnadeginum 2023.  Á hverju ári síðan 2020 hefur Alþjóðlegi safnadagurinn varpað ljósi á valin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að þessu sinni var lögð áhersla á markmiðin heilsa og vellíðan, aðgerðir í loftslagsmálum og líf á landi. Yfirskrift dagsins var Söfn, sjálfbærni, vellíðan og nýttu söfnin margvíslegar leiðir til að sýna fram á hvernig söfn geta stuðlað að sjálfbærni og vellíðan í þeirra samfélögum. 

Sýning Minjasafns Austurlands, Stoppa, staga, stykkja voru sýndir gripir sem allir eiga það sameiginlegt að bera vitni um nýtni og hagleik fyrri kynslóða. Um er að ræða hluti úr safnkosti safnsins sem voru annaðhvort bættir eftir mikla notkun eða þeim breytt þannig að þeir öðluðust nýtt hlutverk. Sýningin er vitnisburður um ótrúlega nýtni og hugvitsemi fólks hér áður fyrr þegar fólk átti færri hluti og notuðu þá til hins ýtrasta, nokkuð sem nútíma fólk mætti oft taka sér til fyrirmyndar. 

Í tengslum við safnadaginn og sýninguna var jafnframt boðið upp á fataviðgerðarsmiðju í samstarfi við Soroptimistaklúbb Austurlands en þar gafst almenningi kostur á að fá aðstoð við að gera við föt sem þörfnuðust lagfæringar. 

Sauðkind og safnkostur

Íslenska sauðkindin þykir harðgerð enda hefur hún aðlagað sig vel að erfiðum aðstæðum hér á landi. Landsmenn hafa í gegnum tíðina lært að nýta hana til hins ýtrasta og spilaði hún stórt hlutverk í því að halda lífi í þjóðinni. Ull og skinn voru notuð í klæði og skófatnað og úr hornum smíðuðu menn spæni og hagldir. Upp á völur og leggi var undinn þráður og bein og horn voru leikföng barna. Tóbakspungar, buddur fyrir aura og annað smádót var unnið úr hrútspungum. Á sýningunni Saukind og safnkostur gefur að líta muni úr safnkosti Minjasafns Austurlands sem hægt væri tengja við sauðkindina á einn eða annan hátt. 

Kassar

Kassar hafa yfir sér leyndardómsfullan blæ. Hlutverk þeirra er breytilegt og hægt er að nýta þá undir alls kyns gull og gersemar eða dót og drasl. Sumir eru sannkölluð listaverk á meðan aðrir eru þjóna frekar hagnýtu hlutverki en fagurfræðilegu. Ef leitarorðið kassi er slegið inn í skráningarkerfi Minjasafns Austurlands koma upp 175 færslur. Á sýningunni Kassar, sem nú stendur yfir í sýningarskápnum á þriðju hæð Safnahússins, má sjá úrval af þeim kössum sem safnið hefur að geyma og enn fleiri er hægt að sjá hér. 

Grýla hét tröllkerling leið og ljót

Á aðventunni 2022 var opnuð sýning í sýningarsal Minjasafnsins sem tileinkuð var Grýlu. Auk fróðleiks um Grýlu og hennar hyski reis gríðarmikill Grýluhellir á sýningunni þar sem gestir gátu farið inn og virt fyrir sér hýbýli hennar. Þar gat meðal annars að líta fleti Grýlu, pottinn hennar stóra og föt að ógleymdum hrísvendinum sem hún notar til að flengja jólasveinana. Þá kom í ljós að Grýla er bókelsk og les bæði Dalalíf Guðrúnar frá Lundi og Harry Potter. Sýningin var hluti af jóladagskrá Minjasafnsins og var einnig nýtt í heimsóknum skólahópa á safnið en í kringum 230 nemendur komu í heimsókn á safnið í skipulögðum heimsóknum í desember 2023. 

Rýnt í álfkonudúkinn

Á sýningunni Rýnt í álfkonudúkinn má sjá afrakstur vinnu grunnskólanemenda á Austurlandi sem fram fór í tengslum við BRAS 2023. Þar fengu nemendu fræðslu um álfkonudúkinn frá Bustarfelli og unnu í kjölfarið skapandi verkefni innblásið af dúknum. 

Markmið verkefnisins var að kynna merkan grip af Austurlandi fyrir grunnskólanemendum í gegnum fræðslu og skapandi vinnu. Minjasafnið bauð upp á fræðslu um dúkinn, sem varðveittur er á Þjóðminjasafni Íslands, og þjóðsöguna á bak við hann en sagan segir að húsfreyjan á Bustarfelli hafi fengið hann í gjöf frá álfum. Í kjölfarið heimsótti myndlistarkonan Anna Andrea Winther skólana með smiðju þar sem nemendur fegnu að spreyta sig á útsaumi í anda dúksins með því að þrykkja laufblaði á bómullardúk og sauma það svo út eftir eigin höfði. Anna saumaði síðan öll laufblöðin saman þannig að úr varð nýr álfkonudúkur sem er sannkallað samstarfsverkefni barna á Austurlandi. Nemendur veltu jafnframt fyrir sér þjóðsöguforminu með því að rifja upp eða semja eigin þjóðsögu.

Nemendur úr Brúarásskóla, Djúpavogsskóla, Vopnafjarðarskóla og Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla tóku þátt í verkefninu sem heppnaðist afar vel og fékk frábærar viðtökur. Afraksturinn er nú til sýnis í Minjasafninu en þar má bæði skoða útsaum barnanna og lesa þjóðsögurnar sem þau sömdu eða endursögðu. Sýningin stendur yfir til 18. október.

Verkefnið var hluti af BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi og var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Safnasjóði, Menningarsjóði Múlaþings og Höldur-Bílaleigu Akureyrar.