Fyrri sýningar

Vetur
Í upphafi árs 2021 var sjónum beint að íþróttum og tómstundum sem tengjast vetrinum á örsýningunni Vetur. Þar voru til sýnis ýmsir gripir úr safnkosti safnsins sem tengudust vetrinum og vetraríþróttum ásamt ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Austurlands sem sýndu austfirskar vetraríþróttir í gegnum tíðina.

Fleyg orð - Flugdrekabók
Sýningin Fleyg orð - Flugdrekabók sveif um loftin í anddyrinu á miðhæð Safnahússins sumarið 2020 og fram á árið 2021. Á sýningunni voru sjö verk eftir listamanninn Guy Stewart sem hvert og eitt var tileinkað fornu bókmenntaverki.
Sýningin var nokkurs konar óður til bókarinnar og bókmenningar, íhuguls lesturs og frelsis ímyndunaraflsins. Listamaðurinn beindi sjónum sínum að þeim áhrifum sem nýir miðlar eins og internetið hafa á hugsanagang okkar og hvernig við umgöngumst bækur í dag. Niðurstaðan var að bækur væru eins og flugdrekar. Á meðan internetið er alltumlykjandi er bókin hlutur sem við tökum okkur í hendur á ákveðnum tímum við ákveðnar aðstæður, rétt eins og flugdrekar sem aðeins er hægt að fljúga í vindi.
Guy Stewart hefur unnið sem leikari, grunnskólakennari og hönnuður. Hann er fæddur og uppalinn í Kanada en hann hefur búið á Íslandi frá árinu 1994.
Sýningin var sett upp í Safnahúsinu á Egilsstöðum í samvinnu við Bókasafn Héraðsbúa og Héraðsskjalasafn Austfirðinga og var styrkt af Fljótsdalshéraði.
Flugdrekabókin hefur verið sett upp á bókasöfnum bæði hér á landi og erlendis. Meðal annars á Amtsbókasafninu á Akureyri, Borgarbókasafni og Íslenska bókasafninu í Háskólanum í Manitoba.

Málfríður Jónsdóttir - blinda stúlkan frá Kolmúla
Málfríður Jónsdóttir fæddist 27. september 1910 að Hreimsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, fyrsta barn hjónanna Guðnýjar Guðmundsdóttur frá Heiðarseli í Tungu og Jónasar Benediktssonar frá Kolsstöðum á Völlum. Þegar Málfríður var á 10. aldursári fluttist fjölskyldan að Vattarnesi við Reyðarfjörð og síðar í Kolmúla. Árið sem fjölskyldan flutti að Vattarnesi veiktist Málfríður illa af heilahimnubólgu og missti bæði sjón og heyrn eftir hálf árs þjáningafull veikindi. Heyrnina fékk hún þó að einhverju leyti aftur. Þrátt fyrir þetta lauk hún 14 ára gömul fullnaðarprófi eins og önnur börn, en foreldrar hennar aðstoðuðu hana við námið með því að lesa fyrir hana og uppfræða á alla lund. Málfríður dvaldi veturlangt í Reykjavík við nám í dönsku og blindraletri til undirbúnings frekara námi við kvennaskóla fyrir blinda í Danmörku. Styrkur hlaust til 2ja ára skólasetu ytra. Málfríður ræktaði talsvert það sem hún hafði yndi af - tónlist, ljóðlist, sögum og fræðum og eignaðist talsvert bókasafn fjölbreyttra rita á blindraletri. Ennfremur hlaut Málfríður mikla þjálfun í vefnaði ýmiskonar og voru afköst hennar og vandvirkni með ólíkindum. Hróður Málfríðar barst víða og var handavinna hennar seld og gefin vítt um land og til útlanda. Málfríður var, þótt ferill hennar gefi annað í skyn, fremur heilsuveil og lést hún aðeins þrítug að aldri, þann 20. mars 1941.

Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld
Sýningin Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld var opnuð í Safnahúsinu þann 30. október, á fyrsta degi byggðahátíðarinnar Dagar myrkurs.
Sýningin samanstendur af 30 teikningum nemenda á teiknibraut við Myndlistaskólann í Reykjavík. Teikningarnar voru unnar upp úr lýsingum á eftirlýstu fólki sem birtust í Alþingisbókum Íslands frá miðri 17. öld og undir lok 18. aldar en á þeim tíma voru ekki aðrar leiðir færar til að lýsa eftir strokufólki og sakamönnum en að setja saman kjarnyrtar lýsingar á útliti þeirra sem lesnar voru upp á Alþingi og bárust síðan manna á milli.
Verkefnið er samstarfsverkefni skólans og Daníels G. Daníelssonar sagnfræðings og er sprottið upp úr rannsóknum Daníels fyrir verkefnið ,,Fötlun fyrir tíma fötlunar“. Við opnun sýningarinnar flutti Daníel fyrirlestur þar sem hann kynnti rannsóknir sínar á efninu og dró fram nokkra eftirlýsta Austfirðinga fyrri tíma.
Sýningin hefur verið sett upp víða um land, m.a. í Háskóla Íslands, Minjasafninu á Akureyri og Sagnheimum í Vestmannaeyjum. Sýningin í Safnahúsinu og fyrirlestur Daníels var samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands, Bókasafns Héraðsbúa og Héraðsskjalasafns Austfirðinga og er styrkt af Alcoa Fjarðaáli.

Slifsi
Sýningin Slifsi stendur nú yfir í Minjasafni Austurlands. Þar eru til sýnis nokkur af þeim fjölmörgu peysufataslifsum sem safnið varðveitir. Þau eru frá ýmsum tímum og eins ólík og þau eru mörg en eiga það öll sameiginlegt að hafa prýtt peysuföt austfirskra kvenna við hátíðleg tækifæri. Sýningarhönnun var í höndum Perlu Sigurðardóttur hjá PES ehf.
Samhliða sýningunni var opnuð vefsýning á Sarpi þar sem áhugasamir geta skoðað myndir af slifsunum og nálgast nánari upplýsingar um þau.

Jólagluggi verslunar Pálínu Waage
Jólasýning Minjasafnsins árið 2018 bar yfirskriftina Jólagluggi Verslunar Pálínu Waage.
Verslun E.J. Waage á Seyðisfirði var upphaflega stofnuð af Pálínu Guðmundsdóttur Waage árið 1907 í nafni eiginmanns hennar, Eyjólfs Jónssonar Waage. Síðar tók Jón sonur þeirra við rekstrinum en árið 1962 var komið að Pálínu Waage yngri, dótturdóttur Pálínu og Eyjólfs að taka við keflinu. Undir stjórn Pálínu yngri var verslunin nefnd Pöllubúð í daglegu tali. Búðin er ógleymanleg öllum sem í hana komu en þar var sannarlega hægt að fá allt milli himins og jarðar. Í viðtali við Morgunblaðið árið 1999 svaraði Pálína spurningu um hvað hún seldi í búðinni með orðunum "hvað sel ég ekki?"
Minjasafn Austurlands geymir mikið safn gripa sem tengist verslunarrekstri Pálínu Waage og bættist í það safn árið 2018 þegar safnið fékk afhenta fleiri gripi, m.a. nokkra sem tengust jólum. Í tilefni af því var jólasýning safnsins helguð versluninni og settur var upp búðargluggi með jólavörum úr búðinni í skápnum fyrir framan Bókasafnið á þriðju hæð.

Austfirskt fullveldi: Sjálfbært fullveldi?
Sýningin Austfirskt fullveldi - Sjálfbært fullveldi var hluti af stærra verkefni sem níu mennta-, menningar- og rannsóknarstofnanir á Austurlandi tóku höndum saman um í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018. Markmiðið var að skoða með nýstárlegum hætti hugtökin fullveldi og sjálfbærni og tengslin þar á milli. Sýningin sem opnuð var í Minjasafni Austurlands var ein af fjórum sambærilegum sýningum sem opnaðar voru á sama tíma á Austurlandi 17. júní 2018. Hinar voru opnaðar í Tækniminjasafninu á Seyðisfirði, í Randulfssjóhúsi á Eskifirði og á Skriðuklaustri í Fljótdal. Sýningarnar fjölluðu um börn árin 1918 og 2018 og var líf þeirra, nánasta umhverfi og samfélag speglað við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Í tengslum við verkefnið var opnuð heimasíða þar sem finna á margvíslegan fróðleik. Verkefnið náði hápunkti á veglegri lokahátíð sem fór fram í Menntaskólanum á Egilsstöðum á fullveldisdaginn, 1. desember. Þar voru sýningarnar fjórar sameinaðar á einum stað, nemendukynntu verkefni sem tengjast fullveldinu og fleira. Auk þeirra stofnana sem þegar hafa verið nefndar komu Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Skólaskrifstofa Austurlands, Safnastofnun Fjarðabyggðar og Landgræðsla ríkisins einnig að því en það var leitt af Austurbrú. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Alcoa

Nr. 2 Umhverfing
Sýningin Nr. 2 Umhverfing var samsýning 37 listamanna sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast Fljótsdalshéraði á einn eða annan hátt. Sýningarstaðirnir voru þrír, Safnahúsið, Sláturhúsið og hjúkrunarheimilið Dyngja. Í tengslum við sýninguna var jafnframt gefin út samnefnd bók með upplýsingum um listamennina og verk þeirra.
Sýningin var hluti af röð sýninga sem settar verða upp víða um land á næstu árum. Fyrsta sýningin var sett upp á Sauðárkróki sumarið 2017 og bar hún titilinn Nr. 1 Umhverfing. Hugmyndin að baki verkefninu er að setja upp myndlistarsýningar í óhefðbundnum rýmum þar sem ekki er hefð fyrir nútíma myndlistarsýningum.
Að sýningunum stendur félagsskapur fjögurra myndlistakvenna sem nefnist Akademía skynjunarinnar. Að henni standa þær Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Þær voru allar á meðal þeirra listamanna sem áttu verk á sýningunni en nöfn þeirra allra má sjá hér. Samstarfsaðilar akademíunnar í verkefninu eru Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Bókasafn Héraðsbúa, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Fljótsdalshéraði og Listasjóði Dungal.

Verbúðarlíf - menning og minning
Fjölmargir Íslendingar kynntust verbúðalífi og verbúðaflakki um og upp úr miðri síðustu öld. Peningalyktin barst úr sjávarplássunum og þangað streymdi unga fólkið, laust og liðugt, í von um skjótan gróða. Sumir sáu í fiskvinnslunni tækifæri til að afla á sumarvertíðinni nægilegs fjár til skólans næsta vetur, en aðrir þraukuðu lengur og unnu jafnt sumarvertíðir sem vetrarvertíðir og færðu sig jafnvel milli plássa, frá Eyjum á Eskifjörð og frá Grindavík á Suðureyri. Allt í senn í von um meiri vinnu, meiri pening og meira fjör.
Á sýningunni Verbúðarlíf sem opnuð var í Minjasafni Austurlands á Dögum myrkurs 2017, fengu gestir að skyggnast inn í herbergi á verbúð. Þar var verbúðalífi þessa tíma gerð skil, annars vegar með myndum og texta og hins vegar með hálftíma langri kvikmynd og jafnlöngum útvarpsþætti.
Sýningin er farandsýningin og var unnin af Spor - menningarmiðlun