Skip to main content

Fyrri sýningar

Hreindýradraugur #3

Sumarsýning Minjasafns Austurlands var opnuð 17. júní 2022. Þar sýndi franski sjónlistamaðurinn François Lelong skúlptúra og málverk sem innblásin voru af hreindýrum og náttúru Austurlands.

François hefur í meira en áratug unnið með landslag og innan þess. Hann velur staði fyrir inngrip og finnur þar efni sem hann notar í skúlptúra og innsetningar sem eru innblásin af menningarlegum, félagslegum og sögulegum einkennum hvers staðar fyrir sig. Þannig vinnur François með tengingarnar milli manna, dýra og umhverfis og á sýningu hans í Minjasafni Austurlands birtist þessi áhugi í tilvist hreindýranna og samspili þeirra við mannfólkið. Efniviðinn sækir hann í náttúruna og vinnur m.a. með hreindýrshorn, tré og jurtir. Sýningin fléttast saman við aðra fasta sýningu safnsins, Hreindýrin á Austurlandi, þannig að til verður skemmtilegt samspil milli listar og menningararfs. 

Sýningin var þriðja sýning François sem innblásin var af hreindýrum en áður hafði hann unnið að list sinni og sett upp sýningar á Húsavík og á Skriðuklaustri. François dvaldi á Fljótsdalshéraði í aðdraganda sýningarinnar á Minjasafni Austurlands og vann að nýjum skúlptúr sem bætist við fyrri verk hans tengd hreindýrunum. 

Sýningin hlaut styrki úr Safnasjóði, Uppbyggingarsjóði Austurlands og frá Múlaþingi. 

Vefur listamannsins. 

Skessur sem éta karla

Sumarsýning Minjasafnsins Austurlands, Skessur sem éta karla, verður opnuð á þjóðhátíðardaginn. 

Sýningin er afrakstur rannsókna Dagrúnar Óskar Jónsdóttir þjóðfræðings sem hefur rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum. Á sýningunni vinnur Dagrún með hvernig mannátið birtist í þjóðsögunum og hvað það getur sagt okkur um samfélagið sem sögurnar tilheyra. Í rannsóknum sínum fléttar hún saman þjóðsögum og nútíma hugmyndum um feminisma og bregður þannig ljósi á nýjar hliðar bæði á þjóðsögunum og ójafnrétti kynjanna. "Þjóðsagnir endurspegla á vissan hátt hugmyndaheim og heimsmynd þeirra sem þeim safna og þær skrifað. Tröllskessur ráða ríkjum í tröllaheiminum og í sögum af mannáti eru það nánast alltaf tröllskessur sem éta mennska karlmenn. Það voru aðallega karlar sem söfnuðu, skrifuðu og gáfu út þjóðsagnaefni og hafa fræðimenn velt því fyrir sér hvort þessi birtingarmynd kvenna sem éta karla geti endurspeglað á einhvern hátt ótta karla við að missa völd sín yfir konunum" segir Dagrún. Niðurstöðum sínum miðlar Dagrún á veggspjöldum sem eru fagurlega myndskreytt með vatnslitamyndum Sunnevu Guðrúnar Þórðardóttur. 

Sýningin hefur verið sett upp víða um land, m.a. á Ísafirði, Hólmavík, Akureyri og Reykjavík. Hún verður á neðstu hæð Safnahússins og mun standa til haustsins. Hún verður sem fyrr segir opnuð á þjóðhátíðardaginn en þann dag verður opið hús hjá Minjasafninu frá kl. 10:00 - 18:00 og frítt inn á allar sýningar. 

Sumar

Á sumardaginn fyrsta var opnuð ný örsýning í sýningarskápnum á efstu hæð safnahússins. Sú ber einfaldlega nafnið sumar og er, eins og nafnið gefur til kynna, tileinkuð hinu íslenska sumri. Á sýningunni eru margvíslegir gripir úr safnkosti safnsins sem allir  tengjast sumrinu á einhvern hátt auk þess sem þar er hægt að skoða ýmsar sumarlegar ljósmyndir frá Ljósmyndasafni Austurlands.. 

Eyðibýli á heimaslóðum.

Ljósmyndasýningin "Eyðibýli á heimaslóðum" var lokaverkefni Önnu Birnu Jakobsdóttur (f. 2001) frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2020. Eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna var um að ræða ljósmyndir af nokkrum völdum eyðibýlum á Austurlandi, en samtals tók Anna Birna fyrir níu eyðibýli víðsvegar um landshlutann. 

Óskadraumur eiginkonunnar.

Á örsýningunni "Óskadraumur eiginkonunnar" sem stóð yfir haustið 2020 voru til sýnis margvíslegir gripir úr safnkosti safnsins sem allir tengdust snyrtingu og útliti. Þar mátti meðal annars sjá forláta snyrtiborð, háfjallasól og Ronson hárþurrkur. Nafn sýningarinnar var einmitt fengið úr auglýsingu fyrir fyrrnefndar háþurrkur þar sem þeim var lýst á þennan háfleyga hátt. Í sumum tilfellum eru sambærilegir hlutir og sáust á sýningunni notaðir enn í dag á meðan tímans tönn hefur ekki farið eins mildum höndum um aðra. 

Vetur

Í upphafi árs 2021 var sjónum beint að íþróttum og tómstundum sem tengjast vetrinum á örsýningunni Vetur. Þar voru til sýnis ýmsir gripir úr safnkosti safnsins sem tengudust vetrinum og vetraríþróttum ásamt ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Austurlands sem sýndu austfirskar vetraríþróttir í gegnum tíðina. 

Fleyg orð - Flugdrekabók

Sýningin Fleyg orð - Flugdrekabók sveif um loftin í anddyrinu á miðhæð Safnahússins sumarið 2020 og fram á árið 2021. Á sýningunni voru sjö verk eftir listamanninn Guy Stewart sem hvert og eitt var tileinkað fornu bókmenntaverki. 

Sýningin var nokkurs konar óður til bókarinnar og bókmenningar, íhuguls lesturs og frelsis ímyndunaraflsins. Listamaðurinn beindi sjónum sínum að þeim áhrifum sem nýir miðlar eins og internetið hafa á hugsanagang okkar og hvernig við umgöngumst bækur í dag. Niðurstaðan var að bækur væru eins og flugdrekar. Á meðan internetið er alltumlykjandi er bókin hlutur sem við tökum okkur í hendur á ákveðnum tímum við ákveðnar aðstæður, rétt eins og flugdrekar sem aðeins er hægt að fljúga í vindi.

Guy Stewart hefur unnið sem leikari, grunnskólakennari og hönnuður. Hann er fæddur og uppalinn í Kanada en hann hefur búið á Íslandi frá árinu 1994.

Sýningin var sett upp í Safnahúsinu á Egilsstöðum í samvinnu við Bókasafn Héraðsbúa og Héraðsskjalasafn Austfirðinga og var styrkt af Fljótsdalshéraði.

Flugdrekabókin hefur verið sett upp á bókasöfnum bæði hér á landi og erlendis. Meðal annars á Amtsbókasafninu á Akureyri, Borgarbókasafni og Íslenska bókasafninu í Háskólanum í Manitoba.

Málfríður Jónsdóttir - blinda stúlkan frá Kolmúla

Málfríður Jónsdóttir fæddist 27. september 1910 að Hreimsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, fyrsta barn hjónanna Guðnýjar Guðmundsdóttur frá Heiðarseli í Tungu og Jónasar Benediktssonar frá Kolsstöðum á Völlum. Þegar Málfríður var á 10. aldursári fluttist fjölskyldan að Vattarnesi við Reyðarfjörð og síðar í Kolmúla. Árið sem fjölskyldan flutti að Vattarnesi veiktist Málfríður illa af heilahimnubólgu og missti bæði sjón og heyrn eftir hálf árs þjáningafull veikindi. Heyrnina fékk hún þó að einhverju leyti aftur. Þrátt fyrir þetta lauk hún 14 ára gömul fullnaðarprófi eins og önnur börn, en foreldrar hennar aðstoðuðu hana við námið með því að lesa fyrir hana og uppfræða á alla lund. Málfríður dvaldi veturlangt í Reykjavík við nám í dönsku og blindraletri til undirbúnings frekara námi við kvennaskóla fyrir blinda í Danmörku. Styrkur hlaust til 2ja ára skólasetu ytra. Málfríður ræktaði talsvert það sem hún hafði yndi af - tónlist, ljóðlist, sögum og fræðum og eignaðist talsvert bókasafn fjölbreyttra rita á blindraletri. Ennfremur hlaut Málfríður mikla þjálfun í vefnaði ýmiskonar og voru afköst hennar og vandvirkni með ólíkindum. Hróður Málfríðar barst víða og var handavinna hennar seld og gefin vítt um land og til útlanda. Málfríður var, þótt ferill hennar gefi annað í skyn, fremur heilsuveil og lést hún aðeins þrítug að aldri, þann 20. mars 1941.

 

Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld

Sýningin Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld var opnuð í Safnahúsinu þann 30. október, á fyrsta degi byggðahátíðarinnar Dagar myrkurs. 

Sýningin samanstendur af 30 teikningum nemenda á teiknibraut við Myndlistaskólann í Reykjavík. Teikningarnar voru unnar upp úr lýsingum á eftirlýstu fólki sem birtust í Alþingisbókum Íslands frá miðri 17. öld og undir lok 18. aldar en á þeim tíma voru ekki aðrar leiðir færar til að lýsa eftir strokufólki og sakamönnum en að setja saman kjarnyrtar lýsingar á útliti þeirra sem lesnar voru upp á Alþingi og bárust síðan manna á milli. 

Verkefnið er samstarfsverkefni skólans og Daníels G. Daníelssonar sagnfræðings og er sprottið upp úr rannsóknum Daníels fyrir verkefnið ,,Fötlun fyrir tíma fötlunar“. Við opnun sýningarinnar flutti Daníel fyrirlestur þar sem hann kynnti rannsóknir sínar á efninu og dró fram nokkra eftirlýsta Austfirðinga fyrri tíma. 

Sýningin hefur verið sett upp víða um land, m.a. í Háskóla Íslands, Minjasafninu á Akureyri og Sagnheimum í Vestmannaeyjum. Sýningin í Safnahúsinu og fyrirlestur Daníels var samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands, Bókasafns Héraðsbúa og Héraðsskjalasafns Austfirðinga og er styrkt af Alcoa Fjarðaáli.