Upphaf að stofnun Minjasafns Austurlands má rekja til fundar sem haldinn var í Atlavík árið 1942 en þar var samþykkt að stofna undirbúningsnefnd að stofnun byggðasafns á Austurlandi. Nefndina skipuðu Gunnar Gunnarsson, rithöfundur á Skriðuklaustri, Páll Hermannsson alþingismaður, Þórarinn Þórarinsson skólastjóri Eiðum, Björn Hallsson hreppstjóri á Rangá, Sveinn Jónsson bóndi á Egilsstöðum, Benedikt Guttormsson bankastjóri á Eskifirði og Sigrún P. Blöndal forstöðukona Húsmæðraskólans á Hallormsstað.1
Segja má að söfnun muna þeirra sem mynda safnkost safnsins hafi formlega hafist með bréfi dagsettu 17. nóv. 1942. Á þeim tíma hafði nútíminn hafið innreið sína og menn töldu að hratt myndi hið gamla gleymast ef ekki yrði spornað gegn því. Ræktarsemi við „sögu þjóðarinnar, minningar hennar og minjar,“ þótti vera „ræktarsemi við framtíð hennar, sjálfstæði og frelsi“, eins og segir í fyrrnefndu bréfi. Í bréfinu var þess óskað að hvert heimili á Austurlandi legði varðveislu og söfnun menningarminja lið með því að leggja hvaðeina gamalt af mörkum til hins fyrirhugaða safns á Austurlandi er varðveita skyldi slíkar minjar.2
Minjasafn Austurlands var síðan formlega stofnað árið 1943. Stofnaðilar safnsins voru Búnaðarsamband Austurlands, Samband austfirskra kvenna og Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands.3 Síðar bættust Menningarsamtök Héraðsbúa í hópinn og frá árinu 1977 urðu sýslunefndir Múlasýsna meðeigendur og rekstraraðilar safnsins.4
Safnið var fyrst í geymslum á Hallormsstað, en 1945 bauðst Gunnar til að taka það inn í hús sitt og leggja eitt herbergi til sýningar á því. Var það opið almenningi á sumrin og sá fjölskyldan um vörslu þess. Þegar Gunnarshús var afhent ríkinu 1948 stóð til að safnið fengi stóraukið sýningarpláss, enda var það í samræmi við gjafabréf Gunnars og Franziscu. Þegar til kom þurfti Tilraunastöðin, sem þá flutti í húsið, á þessu húsnæði að halda, og varð því ekkert af stækkuninni. Árið 1966 var safninu á Skriðuklaustri lokað formlega, vegna ófullnægjandi aðstöðu. Þegar Safnastofnun Austurlands var sett á laggirnar 1972 var enn leitað eftir því við ráðuneyti þau er hlut áttu að máli, að safnið fengi nægilegt húsrými í Gunnarshúsi. Samkomulag náðist um það og skyldi í staðinn stefnt að nýbyggingu fyrir tilraunastöðina. Þessi áætlun fór einnig út um þúfur, og 1979 varð niðurstaðan sú að safnið skyldi flutt burt frá Klaustri og byggt yfir það á Egilsstöðum. Fyrsti áfangi þeirrar byggingar, sem ber nafnið Safnahús, var tekið í notkun 1996 og hýsir nú Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Bókasafn Héraðsbúa.5
Þegar sýslunefndirnar voru lagðar niður og stofnuð héraðsnefnd var aðildin að rekstri Minjasafnsins endurskoðuð og ákveðið að leita til sveitarfélaga á svæði nefndarinnar um rekstur safnsins. Niðurstaðan varð sú að árið 1995 stofnuðu 11 hreppar á Héraði og Borgarfirði byggðasamlag um rekstur Minjasafns Austurlands.6 Þetta voru: Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Jökuldalshreppur, Hlíðarhreppur, Tunguhreppur, Hjaltastaðahreppur, Eiðaþinghá, Fellahreppur, Skriðdalshreppur, Vallahreppur og Egilsstaðabær.7 Níu síðastnefndu hrepparnir sameinuðust með árunum í sveitarfélagið Fljótsdalshérað sem stóð að rekstri safnsins ásamt Borgarfjarðarhreppi og Fljótsdalshreppi til haustsins 2020. Þá tók sameinað sveitarfélag Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar, Múlaþing, við keflinu og stendur í dag að byggðasamlagi um reksturinn ásamt Fljótsdalshreppi.
Heimildir:
1. Hjörleifur Guttormsson, „Safnamál á Austurlandi“, Múlaþing 8 (1975), bls 8-9.
2. Helgi Hallgrímsson, "Skriðuklaustur", Lesbók Morgunblaðsins 18. desember 1999
3. Hjörleifur Guttormsson, „Safnamál á Austurlandi“, Múlaþing 8 (1975), bls 8-9.
4. Ármann Halldórsson, „Minjasafn Austurlands, bókasöfn í Suður-Múlasýslu og Héraðsskjalasafn
Austfirðinga“, Sveitastjórnarmál. 2. tbl. (1995), bls 88. https://timarit.is/page/5994631?iabr=on#page/n25/mode/2up/search/Minjasafn%20Austurlands
5. Helgi Hallgrímsson, "Skriðuklaustur", Lesbók Morgunblaðsins 18. desember 1999
6. Guðrún Kristinsdóttir, „Minjasafn Austurlands“, Sveitastjórnarmál. 2. tbl. (1995), bls 94. https://timarit.is/page/5994637?iabr=on#page/n31/mode/2up/search/Minjasafn%20Austurlands
7. Steinunn Kristjánsdóttir, „Ársskýrsla Minjasafns Austurlands, 1995, bls. 5. https://minjasafn.is/images/gagnasafn/arsskyrslur/Arsskyrsla1995.pdf