Skip to main content

Sumarhús Kjarvals

Minjasafn Austurlands hefur umsjón með sumarhúsi Jóhannesar Sveinssonar Kjarval sem stendur í hvammi einum í landi Ketilsstaða í Hjaltastaðaþinghá.

Listmálarann Jóhannes Sveinsson Kjarval þarf vart að kynna. Hann fæddist í Skaftafellssýslu árið 1885 en ólst upp á Borgarfirði eystri. Myndlistin átti hug hans allan og ungur hélt hann til Reykjavíkur og síðar til útlanda til að öðlast meiri þekkingu og reynslu á sviði listarinnar. Á fullorðinsárum settist hann að í Reykjavík en taugarnar sem toguðu hann austur á land voru ávallt sterkar. Sagan segir að sumarið 1948 hafi Kjarval ætlað að fá far með bát frá Selfljótsbrú að Krosshöfða. Farið brást hins vegar og bað hann því bílstjórann að keyra sig til baka í hvamm einn sunnan við Ketilsstaði, á svæði sem heitir Græfur, en þar kvaðst hann hafa séð gott „mótív“. Dvölin í hvamminum hafði slík áhrif á listamanninn að hann óskaði eftir því við Björn Guttormsson, bónda á Ketilsstöðum, að fá að reisa sér þar sumarhús. Björn brást vel við bóninni og gaf listamanninum hvamminn þar sem Kjarval reisti sér sumarhús og bátaskýli í byrjun sjötta áratugarins.

Í hvamminum dvaldi hann til lengri eða skemmri tíma næstu 20 sumur og málaði þar mörg málverk. Í hvamminum er einnig bátaskýli sem hýsir bát Kjarvals, Gullmávinn, sem listamaðurinn sigldi niður Selfljót til sjávar og til Borgarfjarðar.

Múlaþing er eigandi húsanna í Kjarvalshvammi en þau hafa verið í umsjá Minjasafns Austurlands frá árinu 1995. Í gegnum árum hefur þar átt sér stað umtalsverð uppbygging, m.a. með lagningu göngustíga og uppsetningu upplýsingaskiltis.

Haustið 2017 fékk safnið Björn Björgvinsson, húsasmíðameistara, til að gera úttekt á sumarhúsinu, meta ástand þess og gera tillögur um viðhald og endurbætur. Sumarið 2018 hófst fyrsti áfangi framkvæmdanna en þá var húsið hýft af undirstöðum sínum og þær endurnýjaðar. Sumarið 2019 var unnið að því að laga klæðningu hússins. Sumarið 2020 var þeirri vinnu haldið áfram auk þess sem þak hússins var lagað. Árið 2021 var framstafn hússins endurbyggður og styrktur auk þess sem útiklæðning var fúavarin og máluð. Báðir gluggarnir voru teknir úr húsinu og verða þeir endursmíðaðir í upprunalegri mynd. Það sama á við um hurð hússins. Á árinu 2022 verður hurð og gluggum komið í húsið og lokið við frágang þakkanta og málun. Þá þarf að huga að varðveislu innviða hússins og einnig að bátaskýlinu sem hýsir Gullmávinn, bát Kjarvals. 

Aðstaða Kjarvals í Hvamminum er minnisvarði um tengsl hans við Austurland og ást hans á fjórðungnum. Húsið lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikla sögu um líf og list eins ástsælasta listamanns þjóðarinnar. Það er eina húsið sem Kjarval gat kallað sitt eigið um ævina og enn má sjá þar ummerki um veru hans og listsköpun. Hin látlausa aðstaða sem Kjarval bjó sér á þessum fallega stað segir mikið um líf listamannsins, persónuleika hans, gildismat, forgangsröðun og lífsstíl. Það er einstök upplifun að ganga um í hvamminum og virða fyrir sér útsýnið og umhverfið sem Kjarval hafði þar fyrir augunum og varð innblástur að mörgum verka hans. Staðurinn og húsin hafa mikið menningarsögulegt gildi og eru stór hluti af sögu þessa merka listamanns.

Minjasafn Austurlands hefur fengið styrki til verkefnisins frá Uppbyggingarsjóði Austurlands, Húsafriðunarsjóði, Safnasjóði, Fljótsdalshéraði, Múlaþingi, Styrktarsjóði EBÍ,  Alcoa Fjarðaáli og Landsvirkjun