Yfirstandandi sérsýningar

Sérsýningar Minjasafns Austurlands sumarið 2017 tengjast allar á einn eða annan hátt 70 ára afmæli þéttbýlis á Egilsstöðum

Þorpið á Ásnum

Þorpið á Ásnum

Um þessar mundir eru 70 ár frá því að Egilsstaðahreppur var formlega stofnaður og þéttýli tók að myndast við Gálgaás. Af því tilefni hafa Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga tekið höndum saman í samstarfið við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og sett upp sýningu sem ber heitið Þorpið á Ásnum, í Sláturhúsinu.

Á sýningunni eru til sýnis munir, ljósmyndir, skjöl, hljóð- og myndefni úr fórum safnanna tveggja sem allt tengist sögu Egilsstaða á einn eða annan hátt. Hér er ekki um að ræða tæmandi sögu Egilsstaða heldur er áhersla lögð á að fjalla um upphafið, um frumbyggjana og frumkvöðlana, sýna hvernig byggðin hefur þróast og taka dæmi um það fjölbreytta mannlíf sem hefur blómstrað á Ásnum alla tíð. Vonir standa til að sýningin veki upp minningar hjá eldri kynslóðum og gefi um leið yngri kynslóðum tækifæri til að fræðast um þá sem á undan þeim gengu um götur þorpsins á Ásnum.

Sýningin er opin þriðjudaga - laugardaga, 11:00-16:00

 


Leikið á Ásnum

Leikið á Ásnum

Í hópi frumbyggja Egilsstaða voru að sjálfsögðu mörg börn. Leiksvæði þeirra var annað og öðruvísi en Egilsstaðabörn þekkja í dag enda hefur bærinn breyst og þróast í tímans rás. Í sýningarskápum í sýningarsal Minjasafnsins má skoða leikföng frá þeim tíma þegar fyrstu innfæddu Egilsstaðabúarnir voru að alast upp. Þar má m.a. sjá brúður, bíla, LEGO kubba og spil. Sumt kann að koma nútímabörnum spánskt fyrir sjónir en önnur leikföng hafa elst betur og gætu allt eins hafa verið keypt í gær.