Skip to main content

Gripur mánaðarins - Október

Nýr mánuður kallar á nýjan grip mánaðarins! Þar sem sólin er sífellt lægra á lofti teljum við heppilegast að draga fram grip sem hefur eitt sinn unnið gott verk við að lýsa upp skammdegið. Til eru mörg ljósfærin sem notuð voru í torfbæjunum í gamla daga og er svona lýsiskola, eða týra, eitt þeirra. Þessi ausulaga kola er úr steini og er með haldi. Lýsi eða flot var sett í skálina, kveikur sem snúinn var saman úr fífuhárum settur þar ofan í og síðan látið loga. Steinkolur voru notaðar áður en lampar úr málmi komu til en haldið var um skaftið á kolum sem þessum þegar ljósið var borið um innanbæjar. Því mátti svo einnig stinga í gat á stoð eða í torfvegg. Kola þessi kemur frá Bakka á Borgarfirði eystra. Þegar kolan fannst var haldið brotið af henni, en fannst skammt frá. Helgi Eyjólfsson (1925-2008), búsettur í Árbæ á Borgarfirði eystra, fann koluna, gerði við og gaf safninu.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.