Skip to main content

Skólaheimsóknir

Stór liður í starfi Minjasafnsins er að taka á móti skólahópum á öllum skólastigum.

Óski kennarar eftir að koma með skólahópa á Minjasafnið geta þeir haft samband í síma 471-1412 eða á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir nánari upplýsingar.

Við minnum einnig á að Minjasafnið býður upp á námsefni sem tengist sýningum og safnkosti safnsins. Nánari upplýsingar um það má finna hér

Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um safnaheimsóknir sem Minjasafn Austurlands býður uppá. Listinn er alls ekki tæmandi og hafi kennarar hugmyndir að öðrum umfjöllunarefnum hvetjum við þá til að hafa samband.

Leikskólar - Líf fólks í gamla daga

Í heimsókninni er fjallað um líf fólks í gamla torfbæjarsamfélaginu. Rætt er um híbýli fólks í gamla daga, fötin sem það klæddist, matinn sem það borðaði og leiki barna. Jafnfram fá nemendur að kynnast því hvers konar staðir söfn eru, hvernig hlutir er geymdir þar og þeim umgengnisreglum sem þar gilda. Lögð er áhersla á að leyfa börnunum að snerta og prófa eins og kostur er. Hægt er að deila efninu niður á fleiri en eina heimsókn og fara þá dýpra í hvern hluta hennar. 

Kári og þorrinn

Í þessari heimsókn er fjallað um þorrann frá ýmsum hliðum. Sögð er saga af Kára sem var til "í gamla daga" og er á sama aldri og hlustendurnir. Sagan gerist í byrjun þorra og inn í hana fléttast fróðleikur um gamla siði tengda þorrakomunni, matarhefðir, gömlu mánaðaheitin, aðstæður fólks í torfbæjum og fleira. Um leið og sagan er lesin eru ýmsir gripir og myndir dregnir uppúr þorrakistunni. Heimsóknin hentar bæði yngsta stigi og miðstigi grunnskóla. Benda má á námsefni um þorrann fyrir 1. og 7. bekk í námsefni Minjasafnsins.

Hreindýr: Safnarallý

Á sýningunni Hreindýrin á Austurlandi er fjallað um þessi einkennisdýr Austurlands. Nemendur fá leiðsögn um sýninguna og í framhaldi af því fara þau í svokallað safnarallý þar sem þau geysast um sýninguna í leit að fyrirfram ákveðnum gripum. Að því loknu er horft á teiknimyndina Bjartur og hreindýrið. Námsefnispakkinn fyrir 3. bekk í námsefni Minjasafnsins fjallar um hreindýrin og tilvalið að vinna með það efni fyrir eða eftir heimsóknina. Heimsóknin hentar vel fyrir yngsta stig grunnskóla

Hreindýr: Lásalausnir

Lásalausnir (Brakeout Edu) er kennsluform þar sem nemendur vinna saman að því að opna lása á sérstökum kassa og nota til þess fyrirliggjandi gögn og vísbendingar. Í þessari heimsókn spreyta krakkarnir sig á þrautum sem allar tengjast hreindýrum og sýningu Minjasafnsins Hreindýrin á Austurlandi. Hentar vel fyrir miðstig grunnskóla. 

Ull í fat

Í heimsókninni er ullarvinnsla kynnt fyrir nemendum og farið í gegnum allt ferlið frá því að ullin kemur af kindinni þar til hún er orðin að bandi. Nemendur fá að prófa að kemba ull, tvinna, og spinna á halasnældu. Heimsóknin hentar elstu bekkjunum á miðstigi og efsta stigi grunnskóla. Í tengslum við þessa heimsókn má benda á námsefnispakka 5. bekkjar í námsefni Minjasafnsins þar sem m.a. er fjallað um tóvinnu.

Leikir fyrr og nú

Í heimsóknni er fjallað um hina ýmsu leiki og þrautir, allt frá víkingatímum til vorra daga. Gestir fá tækifæri til að spila refskák og myllu, stökkva yfir sauðalegg, sækja smjör í strokkinn, spyrja spávölur, leika með horn og bein og fleira. Tilvalin heimsókn þegar farið er að vora í lofti svo hægt sé að vera úti en einnig er hægt að taka á móti hópnum innan dyra. Þessa heimsókn er hægt að sníða að öllum aldurshópum.

Ljósmyndir

Nemendur kynnast starfsemi Ljósmyndasafns Austurlands sem Minjasafnið er aðili að og er deild innan Héraðsskjasafns Austfirðinga. Fjallað er um ljósmyndatækni fyrri tíma, sagt frá nokkrum ljósmyndurum sem störfuðu á Austurlandi, fjallað um hvaða merkingu ljósmyndir höfðu fyrir fólk í gamla daga og hvernig við umgöngumst ljósmyndir í dag miðað við þá. Nemendur velja nokkrar gamlar myndir úr safninu sem þau eiga síðan að endurgera. Fyrir elsta stig grunnskóla eða framhaldsskóla.

Kjarval

Á Minjasafni Austurlands er varðveitt stórt safn persónulegra muna Jóhannesar Sveinsson Kjarvals listmálara auk þess sem Minjasafn Austurlands hefur umsjón með sumarhúsi listamannsins í Hjaltastaðaþinghá. Í heimsókinni fá nemendur fræðslu um listamanninn, verk hans og tengsl við Austurland og sýndir eru gripir sem bera vitni um listsköpun hans og lífstíl. 

Í tengslum við heimsóknina er tilvalið að glugga í barnabókina Kjarval - málarinn sem fór sínar eigin leiðir þar sem fjallað er um ævi og störf listamannsins á aðgengilegan hátt. Bókin geymir m.a. myndir af fjölmörgum gripum sem varðveittir eru á Minjasafni Austurlands og þá má einnig skoða á vefsýningunni Kjarval - gripirnir úr bókinni á Sarpi. 

Þá er vert að vekja sérstaka athygli á námsefninu Kjarval í hugsun og verki: verkefnahefti fyrir myndlistarkennara þar sem finna má verkefni fyrir öll stig grunnskólans sem tilvalið er að tvinna saman við heimsókn á safnið. 

Einnig bendum við á fræðslumyndbönd sem Listasafn Reykjavíkur hefur gert um nýlegar sýningar safnsins á verkum Kjarvals, annars vegar Hér heima og hins vegar Að utan.

 

Þjóðsagna Stopmotion

Nemendur vinna með þjóðsögur í skólanum að svo miklu leyti sem kennarar vilja og í því sambandi má benda á námsefnispakka um Sigfús Sigfússon þjóðsagnasafnara í námsefni Minjasafnsins. Nemendur velja sér stutta þjóðsögu, rýna í hana og sjá fyrir sér hvernig hægt er að myndgera hana. Nemendur koma í heimsókn í Minjasafnið og búa til hreyfimynd (stop motion) upp úr sögunni.

Safnfræðslufulltrúi getur komið í heimsókn inn í bekkinn með kveikju áður en vinnan hefst ef áhugi er fyrir því. Smiðjan sjálf getur líka farið fram í skólanum. Hentar fyrir 3.-5. bekk grunnskóla. 

Jólasveinarnir og áhugamálin þeirra

Í heimsókninni er fjallað um jólasveinana eins og þeir koma fyrir í vísum Jóhannesar úr Kötlum. Sagt er frá áhugamálum þeirra og útskýrt frá hverju þeir draga nöfn sín. Hvaða „froðu“ stal Giljagaur? Hvar var Kjötkrókur þegar hann „krækti sér í tutlu“? Hvað er „tutla“? Til hvers notar maður „þvöru“ og af hverju hentist Bjúgnakrækir upp í rjáfrin? Þessum og fleiri spurningum og vangaveltum er svarað í heimsókninni sem hentar vel yngsta stigi grunnskóla en má einnig aðlaga að miðstigi. Í tengslum við þessa heimsókn má benda á námsefnispakkann fyrir 2. bekk í námsefni Minjasafnsins.

Jólahefðir

Af hverju blöndum við saman malti og appelsínu? Hver vegna borða sumir rjúpur á jólunum? Hvort eru hreindýr jólasveinsins kýr eða tarfar? Í heimsóknin er farið í skemmtilega spurningakeppni þar sem spurt er um margvíslegar jólahefðir og uppruna þeirra. Hentar fyrir mið og elsta stig grunnskóla.