Skip to main content

Skráning muna á Lindarbakka

Á árunum 2020 til 2022 var unnið að skráningu þeirra muna sem tilheyra torfbænum Lindarbakka á Borgarfirði eystra. Um var að ræða samstarfsverkefni safnsins og Borgarfjarðarhrepps og síðar Múlaþings. 

Torfhúsið Lindarbakki er eitt helsta kennileiti á Borgarfirði eystra enda er húsið mikil bæjarprýði. Húsið var byggt árið 1899 og eru hlutar þess enn upprunalegir. Elísabet Sveinsdóttir (Stella á Lindarbakka)  og eiginmaður hennar heitinn, Skúli Ingvarsson, keyptu húsið árið 1979 og nýttu eftir það sem sumardvalarstað. Sumarið 2019 afhenti Stella Borgarfjarðarhreppi húsið formlega til eignar.

Í kjölfarið fóru nýir eigendur þess á leit við Minjasafn Austurlands að það tæki að sér að skrá og ljósmynda alla gripi sem tilheyra húsinu og skemmu sem stendur við það. Verkefnið hlaut styrk í gegnum byggðaþróunarverkefnið Betri Borgarfjörður en markmið þess var að útbúa heilstæða skrá yfir gripina í húsinu, með myndum og upplýsingum um uppruna þeirra og sögu. Eyrún Hrefna Helgadóttir, þjóðfræðingur og starfsmaður Minjasafnsins, fór fyrir verkefninu og hægt var að fylgjast með framvindu þess í máli og myndum á Facebook og Instagram (@lindarbakki).

Verkefninu lauk sumarið 2022 og er afrakstur þess tvær skýrslur sem gestir geta gluggað í þegar þeir heimsækja húsið.