Brasað á Minjasafninu

Börn og barnamenning tóku Minjasafnið yfir í dag í tilefni af barnamenningarhátíðinni BRAS.

Viðburðinn hafði yfirskriftina Brasað á Minjasafninu og þar var lögð áhersla á að leyfa börnunum að "þora, vera og gera" sem eru einmitt einkunnarorð hátíðarinnar. Berglind sagnakona heimsótti safnið, spjallaði við gestina og sagði þeim margvíslegar sögur frá fyrri tíð. Sögustundin var í tengslum við sýninguna Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi?  sem nú stendur yfir á fjórum stöðum á Austurlandi. Þá voru einnig settar upp þrjár smiðjur þar sem krakkarnir gátu mátað víkingabúninga, prófað gamla leiki og þrautir og síðast en ekki síst var boðið upp á fornleifasmiðju þar sem hægt var grafa eftir fornleifum (eftirlíkingum) og kynnast störfum fornleifafræðinga. Síðastnefnda smiðjan slóg algjörlega í gegn og greinilegt að meðal gesta voru margir fornleifafræðingar framtíðarinnar. 

Barnamenningarhátíðin BRAS er nýstofnuð menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Hátíðin var haldin í fyrsta skiptin nú í september og fór fram víðsvegar í fjórðungnum. Í boði var fjölbreytt dagskrá með vinnusmiðjum, leiksýningum, tónleikum og myndlistarsýningum í samstarfi við fjölmargar stofnanir.